Fór út í ferðaþjónustu þegar hún fór á eftirlaun

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV

Fór út í ferðaþjónustu þegar hún fór á eftirlaun

15.01.2022 - 09:08

Höfundar

„Maðurinn minn var fallinn frá og ég sagði við strákana; allt í lagi, ég skal aðstoða ykkur. Var þá að fara á eftirlaun og sá að þetta gæti verið spennandi,“ segir Stella Guðmundsdóttir sem rekur ferðaþjónustuna í Heydal í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi ásamt eldri syni sínum og tengdadóttur.

Fjölskyldan keypti jörðina Heydal árið 2001 og hefur síðan byggt upp sveitahótel og ferðaþjónustu. Fram að því var Stella hins vegar í tuttugu ár skólastjóri í Kópavogi og kennari í tuttugu ár þar á undan.

Rætt var við Stellu Guðmundsdóttur í Sögum af landi á Rás 1. Hún fæddist á Grænlandi 1941 og bjó þar fyrstu árin. „Þannig var að pabbi, sem var íslenskur, var í vísindaleiðangri til Ellesmere Island [í Kanada] sem náttúrufræðingur og mamma var einkaritari hjá nýlendustjóranum í Thule og þau kynntust á leiðinni til Grænlands þarna rétt fyrir stríð, 1939.“

Mynd með færslu
 Mynd: timarit.is
Guðmundur Þorláksson, pabbi Stellu.

Foreldrar Stellu hétu Guðmundur Þorláksson og Elisabeth Þorláksson. Guðmundur tók þátt í leiðangri undir stjórn van Hauens, sem var tengdasonur Knuds Rasmussen, landkönnuðar, og hafði það hlutverk að sinna grasafræði- og veðurrannsóknum. „Síðan skellur stríðið á og þau lokast inni og tóku upp frekari kynni þegar pabbi kom til baka frá Ellesmere Island. Þau giftast svo í Thule og síðan setjast þau að í Asiaat í Diskóflóanum og þar fæddist ég,“ segir Stella. „Svo fékk pabbi, sem var mjög hæfur kennari, fyrirskipun um það, hann gat engu ráðið um það sjálfur, að hann ætti að fara til Nuuk og kenna við kennaraskólann þar. Það var bara pakkað saman í flýti og farið þangað og þar fæddist bróðir minn og við förum þaðan þegar stríði lýkur.“ Þá flutti fjölskyldan til Danmerkur í eitt ár og svo til Íslands.

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Heydalur í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi.

Hóf þriðja starfsferilinn um leið og þriðja æviskeiðið

Stella gekk í Menntaskólann í Reykjavík og þaðan lá leið hennar í kennaranám, kennslu og skólastjórn. Stella hóf því þriðja starfsferlinn, í þetta sinn í ferðaþjónustu, um leið og þriðja æviskeiðið. Hún segir að það hafi verið mikil áskorun að fara af stað með ferðaþjónustu í Heydal enda var það áður en ferðaþjónustan varð jafn umfangsmikill atvinnuvegur og hún er í dag. Heilsan ráði því svo hvenær hún lætur af störfum. „Og hvenær fólk verður orðið mjög leitt á mér,“ segir Stella.

Heitt vatn hefur leikið lykilhlutverk

Stella og synir hennar hafa tvisvar borað eftir vatni í Heydal. Fyrst 2003, þegar þau fengu 37 gráðu heitt vatn, og svo aftur 2008 þegar þau fundu tæplega fimmtíu gráðu heitt vatn. Það hefur verið nýtt t.d. í heita útipotta og sundlaug.„Þegar við vorum að bora 2008 sagði sonur minn, „ég veit hvað ég ætla að gera ef við fáum heitara vatn,“ og það varð til þess að hann lét sig hverfa í viku og útbjó þá útipottana og síðan gerðum við sundlaug inni í fjárhúsunum,“ segir Stella. Þá höfðu þau þegar breytt fjárhúsinu í gróðurhús og tóku því eina þróna í fjárhúsinu og breyttu í sundlaug.

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Fjárhúsinu var breytt í gróðurhús með sundlaug.

Ekki í alfaraleið 

Þegar Stella og synir hennar hófu ferðaþjónustu í Heydal lá meginleiðin um Ísafjarðardjúp inn Mjóafjörð. Þegar brúin yfir fjörðinn var tekin í notkun í september 2009 færðist umferðin frá leiðinni um Heydal. „Það voru margir efins um að við gætum verið með ferðaþjónustu hér eftir að það var búið að brúa en það sýndi sig að fólk sækir bara í þessa friðsæld og einangrun sem hér er. Það dró alla vega ekkert úr.“

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Páfagaukurinn Kobbi vekur jafnan mikla lukku.

Reyna að vera sjálfbær og hefja samrækt

Faraldurinn hefur reynt á í Heydal síðust ár, eins og víðar. „Við erum á fullu í nýjum áformum svo við erum ekkert að gefast upp.“ Nú er unnið að því að koma upp aquaponic-kerfi, eða samrækt, í Heydal, „bleikjueldi sem er tengt við gróðurhús, og þá er það þannig að úrgangurinn úr eldinu fer sem áburður fyrir gróðurinn, grænmetið,“ segir Stella. Þau reyna að nýta það sem þau geta í starfsemina. „Við nýtum fiskinn og síðla sumars í ár þá vorum við alveg sjálfbær á allt salat og svoleiðis. [...] Við reynum að vera eins sjálfbær og við getum. Getum náttúrlega aldrei verið sjálfbær að öllu leyti, en eins miklu leyti og við teljum okkur geta,“ segir Stella.

Hér má hlýða á þáttinn Sögur af landi á Rás 1 í heild sinni.