Flóðbylgja skall á Tonga eftir neðansjávareldgos

15.01.2022 - 10:50
epa09686721 A handout image captured by NOAA's GOES-17 satellite and made available by the Regional and Mesoscale Meteorology Branch (RAMMB) of National Oceanic and Atmospheric Administration (NOAA)/NESDIS shows an explosive eruption of the Hunga Tonga-Hunga Ha'apai volcano, located in the South Pacific Kingdom of Tonga, 15 January 2022. The eruption on 15 January, the second in only two days, was the latest in a series of eruptions from the undersea volcano. According to a Public Notice from the Tonga Geological Services monitoring the Hunga-Tonga-Hunga-Ha'apai (HTHH) issued on 15 January 2022, satellite images captured on the day indicated that the volcanic eruption continued, with ash plume emission.  EPA-EFE/RAMMB/NOAA/NESDIS HANDOUT -- BEST QUALITY AVAILABLE -- HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - RAMMB/NOAA/NESDIS
Flóðbylgja skall á eyríkinu Tonga í Kyrrahafi í morgun, í kjölfar neðansjávareldgoss. Margir lögðu á flótta frá ströndinni en ekki hefur verið tilkynnt um að neinn hafi slasast. Ösku rignir yfir höfuðstað eyríkisins.

Höfuðstaður Tonga, Nuku´alofa, er í um sextíu og fimm kílómetra fjarlægð frá eldfjallinu Hunga Tonga-Hunga ha´apai. Þar hafa verið hræringar síðan á þriðjudag en í gærkvöld að staðartíma færðist gosið í aukana. Yfirvöld sendu út flóðbylgjuviðvörun í gærkvöld að staðartíma og hvöttu fólk til að forða sér frá strandlengjunni.

Birtar hafa verið myndir á samfélagsmiðlum af sjó flæða yfir kirkjur og heimili. Öldurnar voru um 80 sentimetra háar. Þá hafa borist fregnir af því að aska falli á byggð í höfuðstaðnum. Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur eftir Mere Taufa, íbúa á Tonga, að ósköpin hafi byrjað á meðan þau voru að undirbúa kvöldmatinn og hún hafi haldið að þetta væri sprengja. Fjölskyldan leitaði skjóls undir borði. Stuttu síðar byrjaði vatn að flæða inn í húsið.

Gosmökkurinn nær tuttugu kílómetra til himins, hefur Jarðfræðistofnun Tonga gefið út. Ekki er vitað til þess að neinn hafi slasast. Drunurnar stóðu í átta mínútur í gærkvöld og heyrðust alla leið til Fiji sem er í átta hundruð kílómetra fjarlægð. Þar var fólki einnig ráðlagt að forða sér af láglendi og opnuð voru neyðarskýli. 

Tonga samanstendur af 172 eyjum og þar búa um 105.000 manns.