Drónar á sveimi yfir sænskum kjarnorkuverum

15.01.2022 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd: Vattenfall - Flickr.com
Sænsk yfirvöld hafa nokkrar áhyggjur af flugi stórra dróna yfir kjarnorkuverum í landinu. Á níunda tímanum í gærkvöld varð vaktmaður í kjarnorkuverinu í Forsmark var við dróna svífandi yfir því, og um svipað leyti sást til dróna við Oskarshamn. Auk þess urðu starfsmenn við Ringhals og Barsebäck varir við eitthvað grunsamlegt yfir kjarnorkuverum þeirra. Lögreglan segist ekki hafa upplýsingar um hvers kyns tækin voru.

Dróninn yfir verinu í Forsmark var í það minnsta nógu stór til að fjúka ekki burt í rokinu sem var í gærkvöld. Lögreglan kom á vettvang í þyrlu og varð vör við drónann, en hann flaug þá austur í átt að Gräsö. Lögreglan elti drónann í rúma klukkustund, en eftir um klukkutíma eftirför var hann horfinn.

Fréttastofa sænska ríkissjónvarpsins hefur eftir Petru Blomqvist, talskonu lögreglu, að ekkert bendi til þess að dróninn hafi lent inni á lóð kjarnorkuversins eða að neinu hafi verið sleppt úr honum inn á lóðina.

Um svipað leyti fékk lögreglan tilkynningar um hluti á sveimi yfir kjarnorkuverunum í Oskarshamn, Ringhals og Barsebäck. Lögreglan staðfesti að dróni hafi svifið yfir verinu í Oskarshamn, en ekkert hefur verið staðfest varðandi síðastnefndu tvö kjarnorkuverin. Blomqvist segir málin mögulega tengjast.

Sænska hernum hefur verið gert viðvart, en málið er enn á borði lögreglu. Enn sem komið er liggur enginn undir grun. Ef þeir finnast, verða þeir sem stýrðu drónunum ákærðir fyrir brot á flugmálareglum, ólöglegri myndatöku á lokuðu svæði og aðgang að lokuðu svæði í heimildarleysi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV