WHO heimilar tvær nýjar meðferðir við COVID-19

epa08978678 (FILE) - The logo and building of the World Health Organization (WHO) headquarters in Geneva, Switzerland, 15 April 2020 (reissued 31 January 2021). According to media reports, the World Health Organization is among the nominated for this year's Nobel Peace Prize, all backed by Norwegian lawmakers.  EPA-EFE/MARTIAL TREZZINI
 Mynd: epa
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur heimilað tvær meðferðir við COVID-19. Með þeim á að draga verulega úr hættu á alvarlegum veikindum eða andlátum af völdum sjúkdómsins.

Um þetta er fjallað í breska læknablaðinu BMJ. Sérfræðingar heilbrigðisstofnunarinnar segja að ef gigtarlyfið Baricitinib sé gefið alvarlega veikum sjúklingum, ásamt sterum, dragi úr þörf fyrir öndunarvélar og lífslikur aukist.

Einnig er mælt með notkun einstofna mótefnislyfsins Sotrovimab til að koma í veg fyrir mikil veikindi og sjúkrahúsinnlögn hjá eldra fólki, fólki með ónæmisbrest eða langvinna sjúkdóma á borð við sykursýki.

Sérfræðingar segja að gagnsemi lyfsins sé óveruleg fyrir fólk sem á ekki á hættu að þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Auk þess sé virkni þess gegn nýjum afbrigðum á borð við omíkron enn óljós. 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur þrisvar áður veitt leyfi til notkunar lyfjameðferðar við COVID-19. Ráðleggingar um meðferð eru uppfærðar reglulega í ljósi niðurstaðna klínískra rannsókna. 

Omíkron-afbrigðið fer mikinn um allan heim og óttast sérfræðingar heilbrigðisstofnunarinnar að helmingur allra Evrópubúa eigi eftir að sýkjast af því á næstu tveimur til þremur mánuðum.