Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tíu manna takmarkanir og lokanir

14.01.2022 - 13:03
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Fjöldatakmarkanir miðast við tíu manns frá miðnætti, í stað 20 eins og verið hefur undanfarið. Spilasölum og börum verður lokað og ekki verður lengur leyfilegt að hleypa fleira fólki inn á skemmtanir en fjöldatakmarkanir segja til um gegn framvísun neikvæðrar niðurstöðu úr hraðprófi. Þetta er meðal þess helsta í hertum sóttvarnaráðstöfunum sem kynntar voru í hádeginu eftir ríkisstjórnarfund. Nýjar takmarkanir gilda til 2. febrúar.

Engar breytingar verða hins vegar gerðar á reglugerð um starfsemi skóla og frístundaheimila. Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar sæta sömu takmörkunum og áður.

  • Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 20 í 10 manns.
  • Áfram 2 metra nálægðarmörk og óbreyttar reglur um grímuskyldu.
  • Áfram 20 manns að hámarki í rými á veitingastöðum og óbreyttur opnunartími.
  • Sviðslistir heimilar með allt að 50 áhorfendum í hólfi.
  • Heimild til aukins fjölda með hraðprófum fellur brott.
  • Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði áfram með 50% afköst.
  • Íþróttakeppnir áfram heimilar með 50 þátttakendum en án áhorfenda.
  • Hámarksfjöldi í verslunum úr 500 í 200 manns.
  • Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum verður lokað.

 

Efnahagsaðgerðir til að mæta lokunum og takmörkunum

Þar sem mjög er þrengt að ýmislegri starfsemi á að grípa til stuðningsaðgerða vegna þeirra. Frumvarp um gjaldfresti veitingastaða vegna greiðslu skatta og tryggingagjalda verður rætt á Alþingi á mánudag, sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í dag. Hún sagði að jafnframt væri verið að undirbúa stuðningsaðgerðir fyrir viðburðahaldara og ferðaþjónustuna. „Okkar niðurstaða er sú að aðgerðir verði hertar. Þar sem þær verða hertar er líka þörf á efnahagsaðgerðum,“ sagði Katrín.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði að staðan á Landspítalanum væri alvarleg og ríkisstjórnin myndi styðja við spítalann með ráðum og dáð. Fjölga á starfsfólki og rýmum. „Síðan þurfum við, samfélagið allt, að ganga í takt og draga úr samgangi,“ sagði Willum og tilkynnti að fjöldatakmarkanir myndu hér eftir miðast við tíu manns en ekki tuttugu eins og verið hefur síðustu vikur.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra kynnti efnahagsráðstafanir í fjarveru Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra. Fresta á gjalddögum vegna skatta og tryggingagalda veitingahúsa. Einnig hefur verið rætt við ferðaþjónustu og viðburðahaldara. Þær tillögur verða kynntar í næstu viku.

Óbreytt í skólum

Ráðherrarnir þrír héldu óformlegan upplýsingafund á tröppum Ráðherrabústaðarins. Meðal annars var spurt hvers vegna engar breytingar væru gerðar í skólum og á frístundaheimilum.

Katrín sagði að horft hefði verið til Íslands vegna þess að strax í upphafi faraldurs hefði verið ákveðið að halda skólunum opnum eins og hægt væri til að tryggja menntun barna. Þetta hefði líka áhrif á jafnréttismál því ef skólum væri lokað yrðu það fyrst og fremst konur sem yrðu heima.

Willum sagði að það yrði daglegt samtal um stöðuna í skólunum og hún metin stöðugt. 

Óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða

„Ég held að staðan sé einfaldlega þannig að það er óhjákvæmilegt að grípa til þessara herðinga,“ sagði forsætisráðherra og kvaðst trúa því að fólkið í landinu hefði fullan skilning á þessu. Það þyrfti að koma heilbrigðiskerfinu í gegnum þessa bylgju faraldursins.

Heilbrigðisráðherra sagði að ekki hefði verið tekin ákvörðun um að stytta einangrun í fimm daga eins og Bretar og Bandaríkjamenn hafa gert.

Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra voru spurð hvort það væri ekki sérstakt að grípa til svo harðra ráðstafana þegar bólusetningar væru jafn útbreiddar og hér er raunin.

„Auðvitað er það sérstakt en það er líka vitað að bóluefnin sem við erum að nota eru ekki að veita fullkomna vörn, sérstaklega gegn hinu nýja afbrigði,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún sagði að ef aðeins þyrfti að líta til innlagnarhlutfalls af völdum omnikron væri staðan öðruvísi en raunin væri sú að enn væri talsvert um delta-smit sem geta leitt til alvarlegri veikinda og fleiri innlagna á sjúkrahús. Hún sagði nauðsynlegt að horfa alltaf til vísindanna og stöðunnar hverju sinni.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði að ríki væru á misjöfnum stað í bylgjunni, til dæmis þess vegna væru þau ekki öll með sambærilegar sóttvarnaráðstafanir á sama tíma. Þar gæti munað nokkrum vikum. Hann nefndi að Svíar hefðu hert aðgerðir í gær.

Valið milli þriggja kosta

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði að þrír valkostir hefðu verið í stöðunni og ákveðið hefði verið að fara millileið.

Fyrsti valkostur var óbreyttar reglur, sagði Willum. Hann sagði að tiltölulega harðar sóttvarnatakmarkanir hefðu dugað til að hemja fjölgun smita en óbreyttur fjöldi myndi valda miklu álagi á Landspítalanum.

Önnur leiðin var að fara úr 20 manna fjöldatakmörkunum í 10 manna takmarkanir, eins og gert var.

Þriðja leiðin hefði verið fara í einhvers konar lokanir sagði Willum og bætti við. „Við vorum að fara milliveginn í þessu.“

Uppfært 13:49 með lista yfir helstu atriði reglugerðarinnar.