Þungatakmarkanir á hringveginum tefja landflutninga

14.01.2022 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV/Landinn
Sjö tonna þungatakmarkanir voru í dag settar á um 200 kílómetra kafla á þjóðvegi eitt á Suðausturlandi. Þetta stöðvaði mestallan akstur flutningabíla á þessu svæði og setti fiskflutninga meðal annars í uppnám.

Miklar bikblæðingar hafa verið mestalla vikuna sunnan frá Freysnesi austur á Fáskrúðsfjörð. Til að forða frekari skemmdum á slitlagi voru sjö tonna þungatakmarkanir settar á kaflann frá Almannaskarði til Fáskrúðsfjarðar fyrr í dag. Við það stöðvaðist nær allur akstur flutningabíla á þeim kafla.

Ætluðu að keyra fisk í veg fyrir skip í Þorlákshöfn

,,Við ætluðum að keyra bæði frá Djúpavogi og Fáskrúðsfirði suður til Þorlákshafnar, í veg fyrir skip þar í kvöld. Fáskrúðsfjarðarvaran fór bara norðurströndina, sem er töluvert lengra og aukinn kostnaður. Hitt er bara strand á Djúpavogi, við bíðum þar með lestaða bíla," sagði Agnar Sverrisson, svæðisstjóri Smyril Line á Seyðisfirði, um þrjúleytið í dag.

Hafði áhrif á allskyns flutninga

Og þetta hafði áhrif á fleiri flutningafyrirtæki. Þarna flytja til dæmis bílar frá Eimskipi og Samskipum fisk frá Djúpavogi, Breiðdalsvík og Stöðvarfirði. Þá biðu flutningabílar á Hornafirði eftir að komast austur. ,,Svo eru náttúrulega mjólkurflutningar, olía og annað, það er allt stopp. Það er ekki hægt að flytja vörur í verslanir á Djúpavogi einu sinni, eins og staðan er."

Breytt aftur í 10 tonna þungatakmarkanir

Klukkan fjögur breytti Vegagerðin ásþunganum úr sjö tonnum í tíu tonn. Þær takmarkanir gilda alla leiðina frá Freysnesi til Fáskrúðsfjarðar. En vegna veðurspár megi búast við því að þetta fari aftur í sjö tonn. ,,Það breyti því að við getum keyrt, en það þarf að hafa bílana léttari en venjulega," sagði Agnar.