Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þjónusta skerðist enn frekar verði ekkert að gert

Kynning á átaki til að skrá búsetu í atvinnuhúsnæði í  borginni. Örugg búseta fyrir alla
 Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RÚV
Starfsemi grunn- og leikskóla er skert víða um landið í dag. Minnst fjórir grunnskólar eru lokaðir vegna smita, en 2.621 barn er skráð í eftirliti hjá covid-göngudeild Landspítala í dag. Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri, almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, segir aldrei hafa verið eins snúið að halda úti skóla- og frístundastarfi og óttast að þjónustan skerðist enn frekar, verði ekkert að gert.

Seljaskóli í Reykjavík er lokaður í dag og hvorki frístunda né íþróttastarf fyrir börnin í hverfinu vegna mikillar útbreiðslu covid-smita sem erfitt hefur reynst að rekja. Engin kennsla verður í grunnskólunum í Neskaupstað, á Eskifirði né á Reyðarfirði.

„Það þarf eitthvað að gera. Ég held að fólk þurfi dálítið að vera meðvitað um að það sem við þurfum að gera snýst ekkert endilega um reglugerðir eða minnisblöð, það snýst um bara að taka ábyrgð á sér. Hægja aðeins á sér í þessari stöðu sem við erum í núna“ segir Jón Viðar. 

„Ef að það verður ekki gert þá er umtalsverð hætta á því að það verði þjónustufall í ýmiskonar viðkvæmri starfsemi sem sveitarfélögin standa fyrir“ segir Jón Viðar.

Velferðarkerfið á þönum

Jón nefnir að auk skólanna sé mjög þung staða í ýmiskonar velferðarþjónustu. „Innan höfuðborgarsvæðisins er þetta ansi umfangsmikil starfsemi. Þetta eru hjúkrunarheimili, heimahjúkrun, heimaþjónusta, sambýli og ýmiskonar önnur þjónusta sem margir treysta á. Það orðin mannekla, það eru að koma upp smit inni í þessum kjörnum sem er náttúrulega grafalvarlegt mál“.

Hann bendir á að ýmsar stofnanir sem hafi farið úr því að endurskipuleggja starfsemi sína viku í senn, yfir í að endurmeta þjónustuna mörgum sinnum á dag. „Það er bara aðdáunarvert hvað fólk er að ná að gera“ segir Jón Viðar.