Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Telja Íslandspóst hafi brotið lög með nýrri gjaldskrá

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Umboðsmanni Alþingis hefur borist erindi um pakkagjaldskrá Íslandspósts frá Félagi íslenskra atvinnurekenda. Þau telja að gjaldskrá Íslandspósts hafi verið ólögmæt þar sem hún hafi verið gróflega undirverðlögð. Félagið krefst því rannsóknar á stjórnsýslu eftirlitsstofnana vegna gjaldskrárinnar.

Félag íslenskra atvinnurekenda segir að gjaldskráin, sem var í gildi frá ársbyrjun 2020 til 1. nóvember síðastliðins, hafi grafið undan samkeppnisstöðu annarra póst- og vörudreifingarfyrirtækja með undirverðlagningu. Með henni hafi verið brotin ákvæði póstlaga um að miða skuli við raunkostnað að viðbættum hæfilegum hagnaði.

Verðlækkun þessi kom til í kjölfarið á lögum um að verðlag póstsendinga skyldi verið hið sama á landsvísu. Íslandspóstur lækkaði þá verð á landsbyggðinni.

­­Félagið bendir einnig á að Póst- og fjarskiptastofnun hafi úrskurðað að Íslandspóstur fengi á annað hundrað milljóna króna í styrk vegna verðlagningarinnar og hafi stofnunin haldið því fram að lagaákvæði um raunkostnað væri ekki að fullu virkt.

Félag íslenskra atvinnurekenda segir að stjórnsýslustofnanir séu ekki þess umkomnar að lýsa lög óvirk. Yfirlýsingar um slíkt séu ósvífnar og grafi undan grundvallarreglu stjórnskipunarréttar um þrískiptingu ríkisvaldsins.

„FA gætir hagsmuna fyrirtækja sem eru í beinni samkeppni við Íslandspóst og hefur umkvörtunarefnið því mikil áhrif á hagsmuni þeirra. Félagið fer því þess á leit við umboðsmann að hefja frumkvæðisathugun á framangreindri ákvörðun PFS nr. 1/2021 sem og yfirlýsingum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Byggðastofnunar“ segir í beiðninni frá félaginu.