Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stofnanir loka í Hveragerði vegna faraldurs

Mynd með færslu
 Mynd: Hveragerdi.is
Ákveðið var í dag að loka Grunnskólanum í Hveragerði á mánudag, sem og frístundaskólanum Bungubrekku og leikskólanum Óskalandi. Í bréfi frá Aldísi Hafsteinsdóttur sem birt er á vef grunnskólans segir að hátt í 40 prósent starfsmanna grunnskólans séu fjarverandi og á annað hundrað nemendur vegna kórónuveirufaraldursins. Nær allir starfsmenn frístundaskólans eru í sóttkví og nokkur smit hafa komið upp í leikskólanum.

Grunnskólabörn eru því í löngu helgarfríi, þar sem á þriðjudag er starfsdagur í skólanum og foreldraviðtöl á miðvikudag. Aldís vonast til þess að þessar lokanir nái að hemja útbreiðslu smita í samfélaginu.

Bæjaryfirvöld ákváðu jafnframt að biðla til foreldra barna á leikskólum um að hafa börn sín heima næstu daga ef þeir hafa tök á því. Láti þeir vita með fyrirvara fá þeir leikskólagjöld og gjöld vegna mötuneyta felld niður vegna þeirra daga sem börnin verða heima. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV