Sérstakur veitingastyrkur og lokunarstyrkir framlengdir

Veitingageirinn fær styrki frá ríkinu til að mæta tekjutapi vegna sóttvarnaaðgerða. Starfandi fjármálaráðherra segist vonast til að aðgerðirnar komi til framkvæmda á næstu dögum. Þeim sé beint til þeirra sem þurfa raunverulega á þeim að halda.

Eigendur veitingahúsa og kráa hafa ítrekað óskað eftir stuðningi ríkisstjórnar vegna þeirra takmarkana sem gripið hefur verið til í faraldrinum. Tilkynnt var í dag að ríkisstjórnin hyggist veita fyrirtækjum í veitingaþjónustu kost á því að fresta greiðslu á sköttum og tryggingagjaldi. Viðspyrnustyrkir verða framlengdir. Þessar aðgerðir ættu að koma til framkvæmda fljótlega eftir helgi. Einnig stendur til að veita sérstakan veitingastyrk og lokunarstyrkir verða framlengdir. „Það á aðeins eftir að klára þá vinnu þannig að hún verður kynnt eftir helgi. En frumvarpið vona ég og vænti ég að verði á dagskrá í þinginu á mánudaginn,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, starfandi fjármálaráðherra í fjarveru Bjarna Benediktssonar.   

Þórdís segir að styrkirnir sem nú eru kynntir séu afurð af samtölum við fyrirtæki í veitingaþjónustu. „Það sem við erum að gera í dag snýr fyrst og fremst að veitingastöðum. Svo er það sem er í frekari skoðun, það er afurð eftir samtöl við viðburðahaldara, ferðaþjónustu, veitingageirann, menningageirann. En þarna þurfum við að horfa mjög til þess að hagkerfið í heild sinni stendur sterkt. Þannig að við þurfum að vera alveg klár á því að beina þessum sértæka stuðningi ennþá til þeirra sem þurfa raunverulega á því að halda vegna þeirra aðgerða sem við erum að grípa til.“ Hún telur fjárhæðina sem stjórnvöld verja til aðgerðanna líklega verða hærri en milljarður, sem gert er ráð fyrir.