Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ríflega 50 stiga hiti mældist í Ástralíu

14.01.2022 - 04:33
Erlent · Ástralía · Flóð · Gróðureldar · Melbourne · Ofsahiti · Sydney · Eyjaálfa · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Aldrei hefur lofthiti mælst hærri í Vestur-Ástralíu en í gær þegar 50,7 stig sáust á mælum í strandbænum Onslow á vesturströnd landsins. Fyrir 62 árum mældist jafn hár hiti sunnan til í landinu.

Veðurfræðistofnun Ástralíu greinir frá þessu á Twitter með þeim orðum að þarna hafi mælst sögulega hátt hitastig í Vestur-Ástralíu. Í janúar 1960 mældist 50,7 stiga hiti við Oodnadatta-flugvöll í Suður-Ástralíu. Síðdegis í dag, föstudag, staðfestir stofnunin endanlega hvert hitastigið var. 

Loftslagsráð landsins varar við að slíkur ofsahiti geti orðið æ algengari vegna loftslagsbreytinga. Martin Rice, sem fer fyrir rannsóknum ráðsins, segir að metið í gær tengist stighækkandi hlýnun sem hann segir tengjast brennslu jarðefna. 

Að hans sögn hefur ofsahiti þegar haft alvarlegar afleiðingar. Hitabylgjur séu hinn þögli drápari sem felli fleiri í valinn en nokkuð annað veðurfyrirbæri.

Hann kveðst búast við að þeir dagar komi, innan tíu ára, að hitinn fari yfir 50 gráður í stórborgum á borð við Sydney og Melbourne.  Nú er sumar í Ástralíu og gróðureldar hafa logað i vesturhluta landsins og mannskæð flóð orðið á austurströndinni. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV