„Mjög stoltur af liðsframmistöðunni“

Mynd: EPA-EFE / MTI

„Mjög stoltur af liðsframmistöðunni“

14.01.2022 - 21:19
Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta var vitanlega ánægður með sigur Íslands á Portúgal, 28-24 í fyrsta leik Íslands á EM í Ungverjalandi. Aron segir ekkert í leik Portúgals hafa komið Íslandi á óvart.

„Ég er bara mjög stoltur af liðsframmistöðunni. Þetta var bara svona hörku sigur. Mér fannst við vera fínir í nánast öllu sem við gerðum. Við vissum náttúrulega alveg hvað myndi koma og vorum búnir að undirbúa okkur vel og allt það. Við vorum bara með svör við okkar leik og gerðum það mjög vel,“ sagði Aron Pálmarsson eftir leikinn við RÚV.

„Það vantaði kannski aðeins upp á hraðaupphlaupin hjá okkur. Við eigum það inni. En sóknarlega var ekkert vesen hjá okkur. Við gátum alltaf spilað okkur í gegn fannst mér þó sóknin hafi hikstað aðeins hjá okkur þegar Portúgal fór í 5-1 vörnina sína,“ sagði Aron.

Þurfa að vera 100% á móti Hollandi á sunnudag

Ísland mætir Hollandi í næsta leik á sunnudagskvöld. Holland vann Ungverjaland í gærkvöld. En komu þau úrslit Aroni á óvart? „Jájá. Það kom okkur alveg á óvart. Við bjuggumst við ungverskum sigri. En það kom okkur ekkert á óvart í rauninni hversu góðir þeir eru. Við höfum séð leiki með þeim og Erlingur [Richardsson þjálfari Hollands] er náttúrulega að gera frábært starf hjá þeim. Þeir eru bara komnir með gott lið. Þeir sýndu það einmitt á móti heimamönnum að vinna þá hér er bara fáranlega vel gert. Þeir spiluðu vel og það er ekkert að horfa á nafnið þar eða söguna. Þeir eru bara með hörku lið og við þurfum að mæta 100% í þann leik,“ sagði Aron.

Allt viðtalið við Aron má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.