Margrét drottning Dana í hálfa öld

epa07649544 Queen Margrethe II of Denmark during her visit to Tallinn, Estonia, 15 June 2019. Queen Margrethe II of Denmark visits Tallinn from 15 to 16 June to take part in celebrations of the 800th anniversary of the Danish flag, the 135th anniversary of the Estonian flag, Estonia's centennial as well as Estonian-Danish relations.  EPA-EFE/VALDA KALNINA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Danir fagna því í dag að fimmtíu ár eru liðin frá upphafi valdatíðar Margrétar II. drottningar. Hún tók við völdum 14. janúar 1972 eftir að faðir hennar, Friðrik IX Danakonungur, lést. Hún var þá rétt yfir þrítugu.

Árið 1972 var tæpur helmingur Dana fylgjandi því að konungdæminu yrði viðhaldið en nú eru tveir þriðju þeirrar skoðunar. Þetta kemur fram í máli blaðamannsins Gitte Redder sem hefur skrifað nokkrar bækur um dönsku konungsfjölskylduna. 

Það var grár og þokudrungaður dagur þegar sorgmædd tveggja barna móðir varð drottning Dana fyrir 50 árum. Nú eru drengirnir vaxnir úr grasi og barnabörnin átta talsins. 

Margrét Þórhildur hefur á fimmtíu ára valdatíð fært embættið til mjög í átt til nútímans þannig að konungsfjölskyldan er almennt mjög vinsæl í landinu. Hún er fyrsta drottning Dana og sá þjóðhöfðingi landsins sem næstlengst hefur setið í þessu elsta konungsdæmi Evrópu. 

Margrét I réð ríkjum í Danmörku á árunum 1375-1412 en var aldrei formlega krýnd drottning. Núverandi drottning valdi sér nafn henni til heiðurs en hún segist ákveðin í að sinna störfum sínum þar til yfir lýkur.

Það er enda ekki hefð fyrir öðru í Danmörku. Eini konungurinn sem sagt hefur af sér völdum þar í landi er Eiríkur III sem yfirgaf hásætið árið 1146 til þess að ganga í klaustur.

Listræn og vinnusöm

Sagnfræðingurinn Lars Hovebakke segir í samtali við AFP-fréttveituna að vinsældir Margrétar Þórhildar megi meðal annars þakka því að hún láti dægurþras stjórnmálanna lönd og leið. Drottningin þykir alþýðleg, skemmtileg, listræn og vinnusöm.

Hún hefur myndskreytt nokkrar bækur og sömuleiðis þýtt nokkrar, meðal annars bókina Allir menn eru dauðlegir eftir franska heimspekinginn Simone De Beauvoir. Það gerði hún undir dulnefni árið 1981 í samvinnu við eiginmann sinn Hinrik prins sem fæddur var í Frakklandi. Hann lést 2018. 

Hovebakke segir að þeir fimm áratugir sem Margrét Þórhildur hefur leitt þjóðsina hafi markast af miklum þjóðfélagsbreytingum, tilkomu fjölmenningarsamfélags, kreppum og áföllum af ýmsu tagi og nú síðast kórónuveirufaraldurinn. 

Vegna faraldursins verða almenn hátíðahöld með minna móti í dag. Drottning tekur þátt í athöfn í þinghúsinu og leggur blómsveig að leiði foreldra sinna í Hróarskeldu. 

Fjölmennum samkomum til að minnast hálfrar aldar valdatíðar Margrétar II Þórhildar drottningar hefur verið frestað fram í september.