Landsbjörg aðstoðar Landspítala með undirmönnun

14.01.2022 - 13:28
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Landspítali fær svigrúm til að greiða fyrir viðbótarvinnuframlag starfsfólks næsta mánuðinn til að tryggja mönnun á spítalanum á meðan mesti þunginn í faraldrinum gengur yfir. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um þetta á fundi sínum í morgun. Þá munu félagar í Landsbjörg sinna yfirsetu sjúklinga. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.

Starfandi forstjóri Landspítalans sagði í gær að spítalann vanti um 200 hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til að ráða við fyrirsjáanlegt álag í núverandi bylgju. Eins hefur aldrei verið jafn hátt hlutfall langtímaveikinda starfsfólks. Þá er mjög þungt ástand á Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem allar legudeildir eru fullar. 

Á annan tug starfsfólks frá Klíníkinni starfar nú tímabundið á Landspítala til að styrkja mönnun spítalans og þá eru viðræður í gangi við fleiri sjálfstætt starfandi stofnanir í heilbrigðisþjónustu um sambærilega samninga. Starfsfólk frá Sjúkrahúsinu á Akureyri hefur einnig aðstoðað.  

Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar var virkjuð á ný í október og fyrirkomulagi útskrifta úr einangrun vegna Covid hefur verið breytt. Þá standa viðræður nú yfir um skammtímalausnir á höfuðborgarsvæðinu til að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir sjúklinga sem lokið hafa meðferð á spítalanum en í desember opnaði 10 rýma hjúkrunardeild fyrir aldraða með COVID á Eir.