Hér komum við og erum bara hress

Mynd: Pale Moon / Pale Moon

Hér komum við og erum bara hress

14.01.2022 - 16:00

Höfundar

Það er hellingur af nýju listafólki sem kallar eftir athygli tónlistarunnenda í Undiröldu kvöldsins og við gefum því pláss. Dúettinn Pale Moon ríður á vaðið og í kjölfar hans koma ný lög frá Karki, iLo, Jaðrakan, Axel Thor, 7.9.13. og Gulla.

Pale Moon – Clown

Dúettinn Pale Moon, sem gerir út frá Spáni, er skipaður tískuparinu Nataliu Sushchenko söngkonu og Árna Guðjónssyni hljóðfæraleikara. Þau hafa sent frá sér lagið Clown af samnefndri plötu. Lagið er eftir þau skötuhjú en lokavinnsla þess var í höndum Panxi Badi og Bassa Ólafssonar.


Karkur – 100 bros

Hljómsveitin Karkur er nýbúin að senda frá sér sína fyrstu hljómplötu sem fékk nafnið Boðflennur. Upptökur hófusti í árslok 2019 og á plötunni eru átta lög. þar af sjö frumsamin. Lagið 100 bros er eftir gítarleikara sveitarinnar, Stefán Loga Sigurþórsson.


iLo – Mind Like a Maze (Unplugged)

Tónlistarmaðurinn Einar Óli Ólafsson eða iLo hefur sent frá sér titillag plötu sinnar Mind like a maze sem kom út í lok nóvember 2021. Lagið er að sögn Einars Óla tekið upp í órafmagnaðri upptökulotu eins og reyndar öll platan sem var tekin upp af góðum hóp á einu bretti á litlum sveitabæ í Eyjafjarðarsveit, sem heitir Brúnir.


Jaðrakan – Limosa Limosa

Óli J. Jónsson kallar sig Jaðrakan þegar hann sendir frá sér tónlist og er höfundur lagsins Limosa Limosa sem er einmitt latneska heiti fuglsins. Jaðrakan spilar á píanó, kassagítar, rafgítar, orgel og hljóðgervil auk þess að syngja. Um trommur og áslátt sá Ingó en Vignir sá um upptökur og hljóðblöndun.


Axel Thor - Objects In Motion

Axel Þór Steingrímsson hefur sent frá sér lagið Objects In Motion sem hann samdi og tók upp sjálfur og fjallar um vináttu og ást. Axel Þór notar listamannsnafnið Axel Thor sem skýrist kannski af því að hann ólst upp að hluta í Kanada en er fluttur aftur heim.


7.9.13. - Andvaka

Hljómsveitin 7.9.13 er frá Akurureyri og hefur starfað í tvö ár. Hún varð upphaflega til sem verkefni í Músíktilraunir 2020 en tók ekki þátt í þeim fyrr en 2021 vegna pestarinnar. Það gekk vel í Músíktilraunum og sveitinni fannst full ástæða til að halda áfram að vinna að lögum. Hún vonast til að gefa út plötu á næstunni og lagið Andvaka verður á henni.


Gulli - Eftir allt

Eftir allt er annað lag tónlistarmannsins Gulla en að hans sögn er það popplag, innblásið af tónlist níunda áratugsins. Lagið er alfarið samið og unnið af Guðlaugi Rúnari Péturssyni sem kýs að kalla sig Gulla og það verður að finna á fyrstu plötu hans sem kemur út 21. janúar.