Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fylgdu millileið Þórólfs ekki í einu og öllu

14.01.2022 - 14:49
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Þórólfur Guðnason tiltók þrjár leiðir sem stjórnvöld gætu farið í baráttunni við covid í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra fyrir ríkisstjórnarfund í dag. Þær voru allt frá því að halda gildandi takmörkunum óbreyttum upp í að grípa til lokana í samfélaginu. Ríkisstjórnin ákvað að fara millileiðina, herða á nokkrum sviðum, en gekk ekki eins langt og Þórólfur útfærði þá leið í minnisblaði sínu.

Þórólfur tiltók í minnisblaðinu að hver leið hefði sína kosti og galla. Hann sagði að óbreyttar reglur myndu í besta falli viðhalda núverandi ástandi í heilbrigðiskerfinu. Hann taldi að það gæti varað óbreytt í nokkrar vikur að minnsta kosti eða versnað frá því sem nú er. Að auki gæti langvarandi álag stuðlað að brottfalli heilbrigðisstarfsfólks vegna kulnunar og veikinda.

Þórólfur sagði að harðar aðgerðir hefðu fyrr í faraldrinum dugað til að ná tökum á samfélagslegum smitum. Nú kynni sá árangur að verða minni vegna þess að omíkron-afbrigðið er mun meira smitandi en önnur afbrigði og faraldurinn útbreiddari en áður hefur sést. Þó væri fyllsta ástæða til að ætla að hertar aðgerðir myndu fljótlega fækka samfélagslegum smitum og minnka álag á heilbrigðis- og spítalakerfið. Áður hafi tekið sjö daga að sjá árangur af hertum aðgerðum og um fjórtán daga að minnka álag á heilbrigðis- og spítalakerfið. Óvíst væri þó hvort reynslan yrði sú sama nú.

Þriðja leiðin sem Þórólfur nefndi var að beita víðtækum lokunum í samfélaginu, bæði í fyrirtækjum, stofnunum og skólum, í til dæmis tíu daga, til að ná smitum hratt niður í viðráðanlegan fjölda og aflétta svo aðgerðum í hægum skrefum. Hann sagði að ókostir víðtækra lokana væru mikil röskun í samfélaginu en á móti kæmi að hraðar gengi að fækka smitum. Við þessa leið þyrfti hins vegar að skilgreina hvaða starfsemi yrði undanþegin lokunum.

Millileið farin en ekki öll skref stigin

Ríkisstjórnin valdi að fara millileiðina en fór þó ekki í einu og öllu eftir forskrift sóttvarnalæknis.

Helstu frávikin eru í skólastarfi þar sem fyrri reglugerð heldur gildi sínu. Þórólfur lagði til óbreyttar reglur í leik- og grunnskólum en vildi harðari takmarkanir í framhalds- og háskólum. Þar lagði hann til að sett yrði 20 manna regla í stað þess sem nú er og að áhersla yrði lögð á fjarnám. Þessu var ekki farið eftir og því áfram ákvæði um að ekki megi vera fleiri en 20 starfsmenn eða 50 nemendur í sama rými. Þórólfur lagði einnig til bann við öku- og flugnámi meðan reglurnar gilda en ákveðið var að sú starfsemi mætti halda áfram með grímuskyldu.

Þá var ekki farið eftir tillögu Þórólfs um tveggja metra reglu milli óskyldra aðila á sitjandi viðburðum þar sem allt að fimmtíu mega vera í rými með grímuskyldu. Þess í stað er miðað við eins metra reglu og grímuskyldu. Á veitingastöðum mega vera 20 manns í rými en ekki 10 eins og Þórólfur lagði til.

Hins vegar var farið eftir því að samkomubann skyldi miðað við tíu manns og að krám og spilasölum skyldi lokað, einnig að tveggja metra regla skyldi gilda milli óskyldra aðila, eða grímuskylda, svo sem í verslunum. Aðeins er þrengt að mannfjölda í verslunum. Eins og áður eru þar 50 manna samkomutakmarkanir en fyrir hverja tíu metra til viðbótar má nú hleypa inn fimm manns en ekki tíu eins og nú er. Þá er sett áhorfendabann á íþróttakeppnum en 50 iðkendur og aðstandendur mega vera í rými á íþróttaæfingum og -keppnum.