Frábær sigur Íslands í fyrsta leik á EM

epa09686001 Fabio Ramos Magalhaes (L) of Portugal in action against Gisli Thorgeir Kristjansson of Iceland during the Men's European Handball Championship preliminary round match between Portugal and Iceland at the MVM Dome in Budapest, Hungary, 14 January 2022.  EPA-EFE/Tamas Kovacs HUNGARY OUT
 Mynd: EPA - RÚV

Frábær sigur Íslands í fyrsta leik á EM

14.01.2022 - 11:50
Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætti Portúgal í kvöld í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu. Fjögur mót í röð hafði Ísland byrjað á sigri og stefndi á slíkt hið sama í Búdapest í kvöld.

Portúgalar byrjuðu með boltann og skoruðu úr sinni fyrstu sókn. Ísland hélt í sókn en fékk dæmdan á sig ruðning. Á sjöttu mínútu leiksins skoraði fyrirliðinn Aron Pálmarsson fyrsta mark Íslands á EM og jafnaði 1-1.  

Íslenska liðið náði svo fyrst forystu þegar Ómar Ingi Magnússon breytti stöðunni í 3-2.  

Gustavo Capdeville var í miklu stuði í marki Portúgal og sá lengi til þess að okkar menn næðu ekki meiri forystu en 1-2 mörk eða þangað til Ómar Ingi skoraði tíunda mark Íslands og staðan orðin 10-7.  

Elvar Örn Jónsson skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og staðan 14-10 fyrir Ísland þegar liðin gengu til búningsklefa. Í fyrsta skipti munaði þá fjórum mörkum á liðunum og íslenska vörnin stóð frábærlega. Björgvin Páll Gústavsson varði þrjú skot í fyrri hálfleiknum.  

Aron Pálmarsson náði fimm marka forystu fyrir Ísland, 16-11, snemma í síðari hálfleik með sínu fjórða marki í leiknum en portúgalska liðið minnkaði muninn fljótt niður í þrjú mörk.  

Viktor Gísli Hallgrímsson átti góða innkomu í íslenska markið, liðið hafði áfram yfirhöndina og jók forskotið. Það varð mest sex mörk. Ísland sigldi öruggum fjögurra marka sigri í höfn, 28-24, og stimplaði sig inn í mótið af krafti.  

Mörkin dreifðust vel á íslenska hópinn en Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæstur með fimm mörk. Bjarki Már Elísson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Aron Pálmarsson skoruðu fjögur mörk hver.  

Næsti leikur strákanna okkar er gegn Hollandi á sunnudagskvöld.