Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Formaður landstjórnar Grænlands með COVID-19

Myndir af Múte B. Egede, leiðtoga Inuit Ataqatigiit flokksins á Grænlandi.
 Mynd: Inuit Ataqatigiit
Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, er smitaður af COVID-19 og verður því að fresta eða aflýsa ýmsum verkefnum. Þar á meðal er fyrirhugaður fundur með Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur og þátttaka í athöfn í tilefni af 50 ára krýningarafmæli Margrétar drottningar.

Egede er í Danmörku þar sem til stóð að hann hitti allnokkurn fjölda fólks, þeirra á meðal forsætisráðherrann og sendiherra ýmissa ríkja. Öllum þeim fundum er frestað þar til Egede hressist.

Hann lýsir heilsufari sínu í færslu á Facebook með þeim orðum að hann sé fremur slappur en að öðru leyti hafi hann það þokkalegt í ljósi aðstæðna. 

Egede og vinstriflokkur hans, Inuit Ataqatigiit, var ótvíræður sigurvegari þingkosninga á Grænlandi í apríl á síðasta ári. Í kjölfarið myndaði hann landsstjórn með miðjuflokknum Naleraq sem studd er af hægri flokknum Atassut.

Egede er yngstur þeirra sem gegnt hafa embætti formanns landsstjórnarinnar frá því að Grænland fékk takmarkaða stjórn eigin mála árið 1979. Hann verður 35 ára 11. mars. 

Faraldurinn fer mikinn á Grænlandi og segja má að sprenging hafi orðið í fjölda smita. Omíkron-afbrigði veirunnar er ráðandi í landinu og flest smit greinast í þéttbýlisstöðunum Nuuk og Ilulissat.

Dreifðari byggðir hafa ekki heldur farið varhluta af faraldrinum. Í fyrradag greindust 630 ný smit í landinu, níu liggja á sjúkrahúsi en tveir hafa látist frá því faraldurinn skall á.