„Ekkert auðvelt að fá þetta til að ganga svona vel“

Mynd: EPA / EPA

„Ekkert auðvelt að fá þetta til að ganga svona vel“

14.01.2022 - 21:47
Guðmundur Þórður Guðmundsson sagði flest hafa gengið upp í sóknarleik Íslands á móti Portúgal í kvöld. Ísland vann Portúgal, 28-24 í fyrsta leik sínum á EM karla í handbolta. Guðmundur var auðvitað mjög sáttur við byrjun Íslands á mótinu.

„Ég var bara mjög glaður með leikinn og hvernig við lögðum hann upp. Það var ekkert sem kom okkur á óvart í leik Portúgals. Ef við byrjum á vörninni þá vorum við þá voru kannski fyrstur 3-4 mínúturnar þannig að við vorum að koma okkur í gang inn í leikinn. En þá fengum við líka smá hjálp frá Björgvini [Páli Gústavssyni] í markinu sem var að spila vel í fyrri hálfleik. Það sem við lögðum upp með var að keyra á þá hraðaupphlaup. Við fengum fullt af mörkum úr hraðaupphlaupum allan leikinn getum við sagt. Það var líka til þess að þreyta þá,“ sagði Guðmundur.

Sóknarleikurinn gekk frábærlega

„Varðandi sóknarleikinn þá eiginlega gekk hann frábærlega upp megnið af leiknum. Sérstaklega það sem við vorum að spila í fyrri hálfleik, þá gekk flest upp sem við vorum búnir að planleggja. Það eru fullt af atriðum þarna sem við vorum búnir að undirbúa til að skapa svona ákveðið óvissuástand í vörninni og nýta okkur þessa menn sem við höfum maður á móti manni. Það var það sem við vorum búnir að plana og æfa á móti Portúgal. En svo kom smá los á leikinn í lokinn þegar við vorum eiginlega búnir að vinna. En ég hefði viljað sjá okkur klára leikinn kannski aðeins betur,“ sagði Guðmundur.

„En ég er bara mjög ánægður. Það er aldrei auðvelt að byrja svona mót. Það er bara mikil pressa á öllum. Bæði á leikmönnunum og á mér. Þetta var fyrsti leikurinn okkar í maí. Það er ekkert auðvelt að fá þetta til að ganga svona vel. En fjögurra marka sigur á móti frábæru portúgölsku liði er bara eitthvað sem við getum verið mjög sáttir við,“ sagði Guðmundur við RÚV eftir leikinn í kvöld.

Býst við erfiðum leik á móti Hollandi á sunnudag

Ísland mætir Hollandi í næsta leik á sunnudagskvöld. Holland vann Ungverjaland nokkuð óvænt í gærkvöld. „Já, þeir eru bara með virkilega gott lið og hafa verið að spila mjög vel. Þeir spiluðu virkilega vel á móti Ungverjum. Ég sá þá líka spila á móti Svíum um daginn í byrjun janúar. Þar var 19-19 í hálfleik. Þeir voru þá búnir að skora 19 mörk á móti þessari sterku sænsku vörn og góðum markvörðum. Það segir mikið um sóknargetu þeirra. Það verður bara mjög erfiður leikur og við gerum okkur grein fyrir því. Eins og ég hef stundum sagt að það er breytt landslag í handboltaheiminum. Það þýðir ekkert að halda það að lið eins og Holland verði eitthvað auðunnin andstæðingur. Þetta verður mjög erfiður leikur,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.

Allt viðtalið við Guðmund má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.