Danir gætu staðið betur við skuldbindingar um handritin

14.01.2022 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra segir að að fleiri handrit Árna Magnússonar ættu að koma heim til Íslands og vill fá þau að láni frá Dönum. Þá segir hún að Danir gætu staðið betur við þær skuldbindingar sem samþykktar voru við skiptingu handritanna á síðustu öld.

Norðmönnum neitað

Danska ríkisútvarpið fjallaði um handritin nýverið og um þá ósk íslenskra stjórnvalda að fá handritin að láni. Þar kom einnig fram að Norðmenn fengu neikvætt svar við sambærilegri bón á dögunum.

Samkvæmt samkomulagi ársins 1986 um endanlega skiptingu handritanna er Íslendingum óheimilt að krefjast fleiri handrita. Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra leitast eftir því að fá þau að láni en nefnd um handritamálið var skipuð á síðasta ári.

Langtímalán

„Við höfum sagt að við viljum vinna innan samningsins sem var gerður á sínum tíma og við séum að óska eftir langtímaláni. Það sem er að gerast hjá okkur er að við erum að reisa hús íslenskunnar þar sem við munum sýna handritin og leggja mikla áherslu á þau.

Við höfum einnig verið að sinna rannsóknum mjög vel á handritunum og ég tel að við ættum að sinna þessu enn frekar og betur og hér er bæði geta og áhugi og við höfum verið að verja auknum fjármunum til þessa. Því tel ég að fleiri handrit ættu að koma,“ segir Lilja.

Litlar rannsóknir

Í samkomulaginu er hins vegar kveðið á um að báðar þjóðir skuli rannsaka handritin. Lilju þykir Danir geta staðið betur við þá skuldbindingu en þeir gera nú.

„Það er rétt, þeir hafa ekki verið að sinna rannsóknum jafnmikið og við höfum verið að gera. Við höfum auðvitað líka verið að bæta alla þá umgjörð í kringum handritin sem þeir hafa ekki verið að gera. Við getum alveg fært rök fyrir því að þeir hefðu getað staðið betur við sínar skuldbindingar í samningnum. Af því við erum klárlega að gera það.“

Þórgnýr Einar Albertsson