Allir föstudagar voru flöskudagar í Downingstræti 10

14.01.2022 - 22:25
epa09678415 Police outside Ten Downing Street in London, Britain, 11 January 2022.  British Prime Minister Boris Johnson has come under increased pressure following further lockdown party allegations where he is said to have attended a garden party at Downing Street during lockdown in May 2020.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Heimildir breska dagblaðsins Daily Mirror herma að alla föstudaga í kórónuveirufaraldrinum hafi starfsfólk forsætisráðuneytisins í Bretlandi verið hvatt til að fá sér smá vín eða bjór og slaka á eftir erfiða tíma. Stóran hluta þess tíma var algjört bann við samkomum innanhúss.

Vinsældir þessa voru slíkar að starfsmenn slógu saman í vínkæli. Þá kveða heimildir Mirror um að reglulega hafi starfsmaður verið sendur í verslun nærri ráðuneytinu með handfarangurstösku til þess að kaupa áfengi. Mirror birtir mynd sem er sögð af manni sem er að flytja vínkælinn inn um bakdyr Downing strætis þann 11. desember 2020. Þá máttu ekki fleiri en tveir koma saman innanhúss, ef þeir deildu ekki heimili. Eina undantekningin var vegna nauðsynlegra starfa. 

Löngu orðin hefð

Samkvæmt Mirror voru þessir föstudagsviðburðir merktir í rafræn dagatöl starfsmanna sem „Wine-time Fridays,“ sem gæti útlagst á íslensku sem flöskudagur. Viðburðurinn var merktur í hverri viku, frá klukkan fjögur síðdegis til sjö. Þetta er að sögn Mirror löng hefð innan ráðuneytisins, en hún hélt áfram þrátt fyrir harðar samkomutakmarkanir. Forsætisráðuneytið baðst fyrr í dag afsökunar á samkomu sem var haldin á skrifstofu þess daginn fyrir útför Filipusar drottningarmanns, sem Elísabet drottning sótti ein vegna takmarkanna. 

Þrengir að Johnson

Forsætisráðherrann sjálfur, Boris Johnson, er sagður hafa mætt í nokkrar af þeim samkomum sem haldnar voru. Einhverjar þeirra voru í garðinum, þegar viðraði til. Hann hefur beðist afsökunar á því, en sagðist hafa talið að þetta væri vinnuviðburður. 

Fast hefur verið sótt að Johnson vegna samkomanna, enda hefur almenningur þurft að fylgja ströngum samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldursins. Margir eru verulega sárir út í forsætisráðherrann og starfsfólk hans, þar á meðal fólk sem gat ekki kvatt sína nánustu þegar takmarkanir voru hvað harðastar.