„Trúði því að ég væri að fá aðstoð fagaðila“

13.01.2022 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Kona, sem sakar Jóhannes Tryggva Sveinbjörnsson um kynferðisbrot á nuddstofu hans fyrir um áratug, segist hafa talið að hún væri í höndum sérfræðings þegar hún leitaði til hans. „Ég trúði því að ég væri að fá aðstoð fagaðila við meiðslum í bakinu.“

Þetta var meðal þess sem kom fram í skýrslutöku konunnar í gær í Héraðsdómi Reykjaness. Fjölmiðlar máttu ekki birta fréttir fyrr en öllum skýrslutökum væri lokið. Jóhannes Tryggvi gaf einnig skýrslu fyrir dómi í gær en nýtti rétt sinn til að tjá sig ekki um sakargiftir.

Sagði fyrsta tímann hafa verið eðlilegan

Réttarhaldið var opið og er það í fyrsta skipti á þessari öld sem slíkt gerist. Þinghöld í málum sem þessum eru alla jafnan lokuð.

Konan rakti í skýrslutöku sinni að hún hefði frétt af Jóhannesi í gegnum móður sína. Hún hefði verið að glíma við meiðsl í baki eftir bílslys og verið hjá sjúkraþjálfara í eitt ár.

Hún sagði að fyrsti tíminn hefði gengið eðlilega fyrir sig nema henni þótti athugasemdir Jóhannesar um að hún væri eitthvað stressuð vera skrýtnar. Hún var að flytja til Danmerkur um svipað leyti og þegar hún kom aftur til Íslands til að vera viðstödd jarðarför afa síns pantaði móðir hennar aftur tíma hjá Jóhannesi. 

Konan sagði að sá tími hefði einkennst af því að hann hefði nuddað á henni rassinn. Þótt henni hefði fundist þetta sérkennilegt hefði hún ekki velt þessu frekar fyrir sér enda talið sig vera í höndum sérfræðings.

Spurði hvort hún hefði prófað tantra-nudd

Í byrjun janúar fyrir tíu árum átti hún síðan bókaða tvo tíma hjá Jóhannesi með nokkurra daga millibili. Í fyrri tímanum hefði hann aftur farið að nudda á henni rassinn, síðan nálgast nárann og loks spurt hvort hún hefði einhvern tímann prófað tantra-nudd. Það gæti losað um spennu og hjálpað henni að fá fullnægingu. Konan sagði spurninguna hafa komið sér á óvart því þetta hefði ekki verið eitthvað sem þau hefðu rætt um enda hún verið í meðferð við bakmeiðslum. Hann hefði síðan nuddað á henni kynfærin og farið grunnt inn í leggöng. 

Konan sagði að eftir þennan tíma hefði hún fengið sms frá Jóhannesi þar sem hann hefði spurt hvort hann hefði verið of grófur. Hún viðurkenndi að hafa efast um að fara aftur til hans og velti því jafnvel fyrir sér að ræða þetta við móður sína sem hún vissi að hefði ekki liðið svona framkomu. Hún hefði hætt við það þar sem Jóhannes hefði hjálpað móður hennar og hún fengið einhverja sektarkennd að þetta gæti leitt til þess að hún færi ekki aftur til hans.

Tók af skarið eftir forsíðufrétt í Fréttablaðinu

Í seinni tímanum hefðu hlutirnir gengið hraðar fyrir sig. Hún sagði Jóhannes hafa frekar harkalega farið að nudda kynfæri hennar, sett fingur inn í leggöng og minnst tvisvar hefði hún meitt sig og rekið upp óp.

Hún sagðist alveg hafa frosið og þegar hún lagðist á bakið hefði Jóhannes farið að nudda á henni brjóstin. 

Hún sagði málið hafa haft mikil áhrif á sig og gerði enn í dag. Hún væri að fást við kvíða og þunglyndi og verið á lyfjum við slíku. Hún hefði verið með axlarskaða í að verða sex ár en kæmi sér ekki í að fara í sjúkraþjálfun því hún fengi kvíðakast yfir því að vera í lokuðu herbergi. 

Hana sagðist lengi hafa langað að gera eitthvað í málinu en það hefði ekki verið fyrr en 2018 þegar móðir hennar sýndi henni forsíðu Fréttablaðsins, þar sem greint var frá því að fjöldi kvenna sakaði meðhöndlara um kynferðisbrot, að hún ákvað að taka af skarið. 

Héraðssaksóknari ákvað að gefa ekki út ákæru í máli konunnar á sínum tíma. Hún kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem lagði fyrir lögreglu að rannsaka málið að nýju. Héraðssaksóknari gaf síðan út ákæru í maí á síðasta ári.

Sannfærði hana um að bakið yrði tekið næst

Ingi Tryggvason, dómsformaður, spurði konuna hvort Jóhannes hefði einhvern tímann spurt um leyfi fyrir því að nudda á henni kynfærin eða hvort það hefði einhvern tímann verið rætt þeirra á milli. Nei, svaraði konan. 
Ingi vildi líka vita hvort það hefði verið alveg á hreinu af hverju hún hefði leitað til hans; já, svaraði konan, vegna bakmeiðsla eftir bílslys. 
 
Ingi vildi sömuleiðis vita af hverju hún hefði farið í seinni tímann í janúar fyrst fyrri tíminn hefði verið óþægilegur.  Hún sagðist hafa gert Jóhannesi það alveg ljóst að hún væri að leita til hans vegna bakmeiðsla og taldi að mögulega hefði þetta verið einhver misskilningur. Jóhannes hefði sömuleiðis sannfært hana um að í næsta tíma yrði bakið tekið alveg fyrir.  „Ég trúði því að ég væri að fá aðstoð fagaðila við bakinu.“