Skoða nýjar leiðir til að skattleggja notkun ökutækja

13.01.2022 - 09:43
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á Skattadeginum í morgun að yfirvöld væru að skoða aðrar leiðir til að skattaleggja notkun ökutækja. Tekjur af eldsneytisgjöldum hefðu lækkað verulega síðustu ár og við því þyrfti að bregðast.

Fram kom í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að leitað yrði nýrra leiða og reynt að búa til nýtt tekjulíkan, vegna þeirra tekna sem tapast þegar sífellt færri aka á farartækjum sem ganga fyrir bensíni eða olíu. Tekjur ríkisins af eldsneyti hafa lækkað verulega síðustu ár og Bjarni segir að við því þurfi að bregðast. „Það er mikilvægt að við byggjum brú úr gamla kerfinu yfir í nýtt kerfi til að tryggja ríkissjóði nægar tekjur til frambúðar til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja. Þess vegna er það eitt stærsta verkefni nýs kjörtímabils í skatta- og gjaldamálum að koma á laggirnar framtíðartekjuöflunarkerfi vegna umferðar og orkuskipta. Þegar að því kemur þurfum við meðal annars að horfa til þess hvort taka megi upp skattlagningu á notkun ökutækja, út frá til dæmis aflestri á kílómetrastöðu. Þetta væri hægt að gera samhliða því að við værum áfram með hvata til kaupa á vistvænum bílum. Sjáum til hvernig það gengur, þetta er eitt af stóru verkefnunum og við erum þegar komin af stað,“ sagði Bjarni Benediktsson á Skattadegi Viðskiptaráðs, Deloitte og Samtaka atvinnulífsins í morgun. 

Bjarni fór einnig yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins. Skattkerfinu hefði verið beitt til að koma til móts við heimili og fyrirtæki vegna faraldursins, og vaxið úr út vandanum. Þá verði að hlusta eftir varnaðarorðum seðlabankans, sem felist í vaxtahækkunum hans, og það þurfi að draga úr opinberum stuðningi eftir því sem aðstæður leyfa.