Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Norður-Kóreumenn fordæma nýjar þvinganir

13.01.2022 - 23:30
epa07495547 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) shows North Korean leader Kim Jong-un presiding over an enlarged meeting of the Political Bureau of the Central Committee of the Workers' Party of Korea (WPK), at the office building of the Central Committee of the WPK in Pyongyang, North Korea, 09 April 2019 (issued 10 April 2019).  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. Mynd: EPA-EFE - KCNA
Utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu fordæmdi nýjar viðskiptaþvinganir Bandaríkjamanna harðlega í yfirlýsingu í dag og sagði að þeim yrði svarað af hörku.

Bandaríkin settu í dag viðskiptaþvinganir á nokkurn fjölda einstaklinga og eitt fyrirtækja vegna eldflaugaáætlunar Norður-Kóreu. Einræðisríkið hefur gert tvær eldflaugatilraunir síðustu vikuna og alls sex frá því í september.

Ólögleg vopnakaup

Þvinganirnar beinast gegn Norður-Kóreumönnum, búsettum í Rússlandi og Kína, sem tengjast eldflaugaáætluninni auk eins Rússa og rússnesks fyrirtækis.

Fólkið og fyrirtækið er sagt tengjast ólöglegri sölu vopna til Norður-Kóreu og voru þvinganirnar þær fyrstu sem ríkisstjórn Joes Biden forseta samþykkir og beinast sérstaklega að norðurkóreskri vopnaframleiðslu.

Segja vegið að rétti sínum

Norðurkóreskir ríkismiðlar höfðu eftir utanríkisráðuneyti landsins í dag að þvinganirnar væru óásættanlegar og að Bandaríkjamenn væru nú vísvitandi að auka á spennuna á svæðinu.

Um sé að ræða aðför að rétti landsins til að verja sig og að landið muni svara fyrir sig af hörku, sér í lagi ef Bandaríkin halda áfram á sömu leið.

Svo gott sem algjört frost hefur verið í viðræðum Norður-Kóreu við Bandaríkin og Suður-Kóreu um afvopnun á Kóreuskaga síðustu misseri. Enginn raunverulegur árangur hefur náðst í viðræðum.

Þórgnýr Einar Albertsson