Mjög þungt ástand á SAk og allar legudeildir fullar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Mjög þungt ástand er nú á Sjúkrahúsinu á Akureyri og allar legudeildir fullar. Nokkrir starfsmenn eru í sóttkví eða einangrun og foreldrar frá vinnu með börn heima í sóttkví. Forstjórinn segir að það yrði erfitt viðureignar ef smitum fjölgaði frekar á Norðurlandi.

Einn sjúklingur liggur nú á Sjúkrahúsinu á Akureyri með covid, en þó ekki á gjörgæslu. Engu að síður segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins, mikinn viðbúnað þar vegna faraldursins sem hafi áhrif á aðra starfsemi.

Mannekla og starfsmenn í sóttkví eða einangrun

,,Og eins og staðan er í dag þá er mjög þungt ástand á sjúkrahúsinu af öðrum ástæðum og legudeildirnar hjá okkur fullar. Þá erum við líka að horfa fram á manneklu vegna þess að það eru nokkrir starfsmenn í sóttkví eða einangrun. Og ekki síst að foreldrar barna sem eru í sóttkví og geta náttúrulega ekki mætt til vinnu og þetta er farið að hafa teljandi áhrif á okkur."

Neyðarstig á Landspítalanum hafi áhrif

Þá hafi neyðarstig bæði hjá almannavörnum og Landspítalanum einnig áhrif. ,,Þannig að við erum til dæmis að taka við sjúklingum frá Landspítalanum, sem hefur áhrif á okkar þjónustu. Og við sendum starfsfólk til Landspítalans," segir hún.

,,Ef hér kæmi enn stærri bylgja, þyrftum við að stöðva ennþá meiri þjónustu."

Því yrði afar erfitt viðureignar ef smitum fjölgaði enn frekar á starfssvæði sjúkrahússins. ,,Og eins og staða er núna þá erum við með mjög lítið af valaðgerðum í gangi vegna þess að aðstæður leyfa það bara ekki í dag. En ef það kæmi hér enn stærri bylgja, þyrftum við náttúrulega að stöðva ennþá meiri þjónustu. Þá erum við farin að snúa okkur að göngudeildarþjónustu og fara bara inn í bráðastarfsemina alveg. Og að halda áfram að færa fólk á milli eininga þannig að við getum sinnt þessum sem mest veikir eru," segir Hildigunnur.