Omíkron-afbrigðið nam land á Grænlandi skömmu fyrir jól og fór sem eldur í sinu þar sem fólk hittist í jóla- og nýársboðum.
Það er mat landlæknisins Henrik L. Hansen en grænlenska ríkisútvarpið greinir frá himinháum smittölum í Nuuk og Ilulissat á vesturströnd landsins það sem af er janúar.
Að sögn Hansen hefði omíkron-afbrigðið ekki getað komið upp á verra augnabliki í ljósi þess hve margir er á faraldsfæti á þessum tíma auk þess sem sjaldan er meira um fjölskylduboð og aðrar samkomur.
Því hafi reynst nánast útilokað að halda aftur af útbreiðslunni. Hansen viðurkennir að lítið var um samkomutakmarkanir á Grænlandi sem ýtt hafi enn frekar undir útbreiðslu veirunnar.
Til að mynda hafi verið slakað mjög á ferðatakmörkunum frá Nuuk yfir jól og áramót en þá var látið af kröfum um framvísun neikvæðs kórónuveiruprófs meðal óbólusettra.
Hansen segir því ljóst að á því tímabili hafi veiran dreift sér víðar um landið en telur jafnframt að það hefði gerst fyrr eða síðar. Eins hafi smitrakning í Danmörku leitt í ljós uppruna frá Grænlandi.
Í ljósi smithæfninnar hefði verið útilokað að stöðva útbreiðslu omíkron-afbrigðisins að mati Hansen. Landlæknirinn áréttar þó að bóluefni verndi gegni alvarlegum veikindum þótt þau dragi ekki nægilega úr líkum á smiti.
Í fyrradag greindust 457 ný smit á Grænlandi. Tveir hafa látist af völdum COVID-19 frá því að faraldurinn skall á í landinu.