Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kennir þrýstingi frá fjölmiðlum um ákæru í málinu

13.01.2022 - 15:20
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson, sem er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn konu á nuddstofu sinni fyrir áratug, segir að ákæra í málinu hafi verið gefin út eftir þrýsting, meðal annars frá fjölmiðlum, eftir að málið hafði verið fellt niður. Hann segir konuna hafa farið mikinn í fjölmiðlum og gert málið allt oppinbert þar sem hún hafi meðal annars lýst atvikum opinberlega og um leið fyrir væntanlegum vitnum.

Jóhannes Tryggvi nýtti rétt sinn til að tjá sig ekki um sakarefni þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi í morgun.   Hann skilaði hins vegar greinargerð til dómsins í byrjun október sem fréttastofa hefur undir höndum. 

Greinargerðinni var skilað áður en Landsréttur þyngdi dóm héraðsdóms yfir honum í öðru máli og dæmdi hann í sex ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum.  

Í greinargerðinni segir Jóhannes að mál hans sé fordæmalaust um margt og megi rekja til einskonar hópmálsóknar þar sem nokkur fjöldi kvenna hafi sameinast um leggja fram kæru á hendur honum.   

Hann segir að þær kærur sem hafi komið fram á hendur honum og sú sem sé til meðferðar nú eigi það sammerkt að bein sönnunargögn skorti í öllum tilvikum. Ekki sé öðru til að dreifa en framburði hans, brotaþola og eftir atvikum vitna með óbeina vitneskju um atvik sem oft á tíðum eigi að hafa gerst mörgum árum áður en kært var.

Jóhannes gerir verulegar athugasemdir við framkvæmd, rannsóknaraðferðir og niðurstöður matsgerðar í málinu sem hann segir vera ranga. Hann segir að þeir matsmenn sem hafi verið kvaddir tilheyri ekki sömu starfsstétt og hann og starfi á frábrugðnu sviði samanborið við þá þjónustu sem hann veitti. 

Matsgerðin sé ótækt sönnunargagn í málinu því hinir dómkvöddu matsmenn hafi verið ófærir um að meta á grundvelli sérþekkingar sinnar nudd-eða meðhöndlunaraðferðir á því sviði sem hann starfi á.

Hann segir að konan hafi kært atvikið mörgum árum eftir að það gerðist til að styðja við frásagnir annarra kvenna sem fjallað hafi verið um í fjölmiðlum. Frásögn hennar á atvikum hafi fyrst komið fram við og eftir fund með þáverandi réttargæslumanni og þeirrar fjölmiðlaumræðu sem þá hafi verið komin fram.

Konan var ein 11 kvenna sem kærði Jóhannes til lögreglu. Héraðssaksóknari gaf ekki út ákæru á sínum tíma og kærði konan þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem lagði fyrir lögreglu að rannsaka málið að nýju. Héraðssaksóknari gaf síðan út ákæru í maí á síðasta ári

Aðalmeðferðinni í málinu lýkur á morgun. Þinghaldið er opið og er það í fyrsta skipti á þessari öld sem slíkt er gert því réttarhöld í kynferðisbrotamálum eru alla jafnan lokuð.  

Konan gaf skýrslu fyrir héraðsdómi í morgun en fjölmiðlum var bannað að greina frá því sem þar kom fram þar til búið væri að taka skýrslur af öllum vitnum.