Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Jóhannes nýtti rétt sinn til að tjá sig ekki

13.01.2022 - 10:38
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Aðalmeðferð hófst í morgun í Héraðsdómi Reykjaness í máli Jóhannesar Tryggva Sveinbjörnssonar sem er ákærður fyrir að hafa nauðgað konu á nuddstofu sinni. Hann nýtti rétt sinn til að tjá sig ekki um sakargiftir í skýrslutöku sinni og lýsti því yfir að hann hefði ekki komið við brjóst eða kynfæri konunnar á óviðeigandi hátt.

 

Réttarhaldið í morgun var opið og er það í fyrsta skipti á þessari öld sem slíkt er gert í kynferðisbrotamáli. Réttarhöld eru alla jafnan lokuð í málum eins og þessum

Jóhannes var í nóvember dæmdur í sex ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum og er þetta því annað dómsmálið sem er rekið á hendur honum.

Konan í málinu er ein af ellefu sem kærði Jóhannes  til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir fjórum árum en héraðssaksóknari ákvað að gefa ekki út ákæru á sínum tíma. 

Hún kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem lagði fyrir lögreglu að rannsaka málið að nýju. Héraðssaksóknari gaf síðan út ákæru í maí á síðasta ári

Í ákærunni kemur fram konan hafi tvívegis komið á nuddstofu Jóhannesar í byrjun árs 2012. Honum er gefið að sök að hafa í starfi sínu sem nuddari káfað á kynfærum hennar, rassi og brjóstum og sett fingur inn í leggöng henar, henni að óvörum, þar sem hún lá léttklædd á nuddbekk.

Jóhannes Tryggvi gaf skýrslu í gegnum fjarfundabúnað þar sem hann er í sóttkví.  Hann  nýti rétt sinn til að tjá sig ekki um sakargiftir, umfram það sem hefði komið fram í skýrslutökum yfir honum hjá lögreglu. Þar neitaði hann sök. Hann kvaðst ekki hafa komið við brjóst eða kynfæri konunnar á óviðeigandi hátt. 

Þegar saksóknari reyndi að spyrja Jóhannes út í ákveðin atriði í lögregluskýrslum bað hann saksóknarann um að virða afstöðu sína og vera ekki að reyna að draga hann út í að svara spurningum um málið. Skýrslutakan tók því ekki meira en nokkra mínútur.

Jóhannes fékk síðan að fylgjast með skýrslutöku konunnar í gegnum fjarfundabúnað í tölvu sem var stillt upp við hlið Steinbergs Finnbogasonar, verjanda hans.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV