Hundruð tonna af stuðlabergi á Landsbankann

13.01.2022 - 21:00
Innlent · Alþingi · Hof · Landsbankinn
Hundruð tonna af stuðlabergi fara utan á nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurbakka í Reykjavík. Þessi bergtegund nýtur mikilla vinsælda við gerð stórra bygginga. Efnið er fengið úr einkanámu fyrir austan fjall.

Hönnun Landsbankans er samvinnuverkefni danskrar og íslenskrar arkitektastofu. Nýbygging alþingis verður einnig klædd að hluta með íslensku stuðlabergi. Þá er menningarhúsið Hof umvafið berginu. Það er fengið úr Hrepphólanámu sem er í einkaeign og er bergið ófriðað. Stuðlaberg er hörð bergtegund, þykir endast vel og þarf ekkert viðhald.

Brjánn Guðjónsson er framkvæmdastjóri  S. Helgason.

„Svona stór verkefni koma alltaf á nokkurra ára fresti, svona alvöru verkefni sem hlaupa á einhverjum þúsundum fermetra. Við höfum verið töluvert í Danmörku. Höfuðstöðvar Jyske bank í Danmörku eru til dæmis með íslensku stuðlabergi sem við framleiddum fyrir fimm árum síðan, höfuðstöðvar Bang og Olufsen í Danmörku einnig,“ segir Brjánn

Og það er nóg til af stuðlabergi í önnur verkefni það er engin þurrð á markaðnum? „Nei alls ekki, þessi náma er ofboðslega stór og eins og ég segi hefur verið tekin í mörg verkefni og þetta krefst tækja og flókinnar vinnslu. Þetta er þung framleiðsla, þetta er engin léttavara en það er til nóg af stuðlabergi.“

Ólöf Rún Skúladóttir