Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hoppukastalaslysið - hópur til stuðnings Klöru

Mynd: Facebook - Áfram Klara , RÚV - / RÚV
Rannsókn lögreglunnar á hoppukastalaslysinu á Akureyri í fyrrasumar er langt komin. Sex ára stúlka sem slasaðist mjög alvarlega er ennþá í endurhæfingu. Hún er ofurhetja segir einn stofnenda stuðningshóps á Facebook. Móðir stúlkunnar var öðrum hvatning til að taka rækilega á í útivist og hreyfingu. 

Slysið var 1. júlí og voru um 100 börn í hoppukastalanum þegar hann tókst á loft. Sjö voru flutt á Sjúkrahúsið á Akureyri og stúlka, Klara sem nú er sex ára, var flutt á Landspítalann. Rannsókn á slysinu er langt komin hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra. 

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook - Áfram Klara , RÚV - - RÚV
Ásthildur Björnsdóttir.

Ásthildur Björnsdóttir, frænka Klöru, hafði aldrei stigið á gönguskíði fyrr og ekki farið í sund árum saman en er nú komin með árskort og búin að ljúka námskeiði í skriðsundi. 

„Við smituðumst svo af af eldmóði móður klöru. Við sáum hvað það gerði henni gott að fara út og bara hreyfa sig, bara upp á andlega heilsu,“ segir Ásthildur. „Og svo þegar hún ákveður að skrá sig þarna hálfvættina sem er angi út frá Landvættum að þá vorum við einhver veginn bara við komum bara með. Fólk var ekki einu sinni að pæla í því hvað hálfvættir ganga út á. Þannig að fólk einmitt sem hafði aldrei stigið á gönguskíði það ákvað bara ég verð bara með líka,“ segir Ásthildur. 

Fjölskylda, vinir og kunningjar stofnuðu því síðuna Áfram Klara á Facebook til að styðja fjölskylduna í gegnum hreyfinguna en líka er hægt að veita fjárhagsstuðning. Og svo er hægt að fylgjast með þegar næstum 20 manns taka þátt í hálfum landvættum með því að skíða, hjóla, hlaupa og synda marga tugi kílómetra. „Mamma hennar Klöru og pabbi þau eru náttúrulega algjörir naglar og mamma hennar fann það bara að þarna var hennar leið.“

„Og við nýtum okkur bara hennar eldmóð og síðast en ekki síst eldmóðinn hennar Klöru að fara út að hreyfa okkur í hvaða veðri sem er. Og þó að það sé ógeðslega erfitt og svona þá erum við bara: Við ætlum ekki að vera með neitt væl, því Klara er að gera mestu áskorunina.“ Klara sjálf, hvernig hefur hún það, hefur hún svona persónuleika til að berjast áfram? „Hún er bara algjör nagli. Hún er bara mesta ofurhetja sem ég hef hitt, það er bara þannig. Hún er í mikilli endurhæfingu og verður það áfram en það gengur vel.“