Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Framtíð Johnsons hangir á bláþræði

Mynd: EPA-EFE / UK PARLIAMENT
Ný skoðanakönnun Yougov fyrir The Times bendir til þess að að 60 prósent kjósenda í Bretlandi vilji að Boris Johnson, forsætisráðherra, segi af sér. Óánægjuna má rekja til margra hneykslismála undanfarna mánuði. Síðast var upplýst á mánudag að garðveisla hefði verið haldin í embættisbústað forsætisráðherra í maí árið 2020 þegar afar strangar sóttvarnareglur voru í gildi og allar samkomur bannaðar, innan- sem utanhúss.

Tvær afsökunarbeiðnir í þinginu á mánuði

Í annað skipti á mánuði hefur Boris Johnson þurft að biðjast afsökunar í neðri málstofu breska þingsins á veisluhöldum í embættisbústað hans, Downingstræti 10. Johnson og Íhaldsflokkurinn hafa efalítið vonast til að á nýju ári kæmu nýir tímar og það fennti yfir þau hneykslismál sem upp komu undir lok síðasta árs og að reiði fólks vegna þeirra rynni af almenningi - en aldeilis ekki.

Baðst afsökunar vegna jólaboðs

Rifjum upp að Johnson fékk að finna til tevatnsins í fyrirspurnatíma forsætisráðherra vegna jólasamkvæmis sem hann neitar að hafi verið haldið í Downingstræti 10 fyrir jólin 2020 þegar mjög strangar sóttvarnareglur voru í gildi. Fólk mátti ekki hittast innanhúss og jólaveislur voru sérstaklega bannaðar.

Allir neituðu að jólaboð hefði verið

Johnson, aðrir ráðherrar og þingmenn Íhaldsflokksins harðneituðu að þessi frétt væri rétt en þurftu svo að snúa við blaðinu eftir að ITV sjónvarpsstöðin birti í fréttum sínum upptöku þar sem starfsmenn í Downing-stræti 10 virtust gera grín að og hafa veisluhöldin í flimtingum. Allegra Stratton, einn helsti aðstoðarmaður Johnsons, var látin taka pokann sinn en Johnson sjálfur kvaðst ekkert hafa vitað. 

Enn alvarlegra núna

Það er athyglisvert að í desember baðst Johnson afsökunar á þeirri ímynd sem upptakan gæfi. Núna baðst hann afsökunar en segir samt að um vinnufund hafi verið að ræða og því ekki lagabrot. Þessi nýjast skandall er þó jafnvel enn alvarlegri en jólaboðið og það virðist ljóst að Boris Johnson og starfslið hans í Downingstræti hafi umgengist eigin reglur og lög um samkomutakmarkanir af fullkominni léttúð. 

Sprengju varpað í sjónvarpsfréttum

ITV varpaði bombunni á mánudagskvöld þegar stöðin sagði frá að garðveisla hefði verið haldin í Downingstræti 10 í maí árið 2020 þegar enn strangari reglur voru í gildi og allar samkomur bannaðar, innan- sem utanhúss. Fólk mátti hitta einn utan eigin heimilisfólks utanhúss og þurfti að viðhalda tveggja metra fjarlægð.

Tilkynnti takmarkanir klukkutíma áður en veislan hófst

Ráðherra tilkynnti þetta í beinni útsendingu frá einmitt Downingstræti 10, klukkutíma áður en veisla starfsmanna hófst í garðinum. Um eitt hundrað manns fengu boð í tölvupósti frá háttsettum nánum aðstoðarmanni forsætisráðherra. Pósturinn var sendur á starfsfólk í Downingstræti 10 og var boð til þeirra að koma til veislu í garðinum og njóta besta veðurs ársins vegna mikils álags undanfarið. Boris Johnson, forsætisráðherra og eiginkona hans, Carrie Johnson, voru meðal veislugesta.

Fór í felur

Johnson fór í nánast felur í fyrradag, nokkur blöð birtu afar hallærislega mynd af honum þar sem hann sat djúpt í aftursæti embættisbílsins, eins og hann væri að reyna að forðast myndatökur. Þegar málið var tekið upp í neðri málstofu þingsins var Johnson hvergi sjáanlegur. Angela Rayner, varaleiðtogi Verkamannaflokksins, krafðist svara. Hún fór fyrir Verkamannaflokknum vegna þess að sir Keir Starmer, leiðtogi flokksins, var í sóttkví.

Undirráðherra til svara

Þá var enginn úr ríkisstjórninni var til svara, heldur var það Michael Ellis, undirráðherra í forsætisráðuneytinu, sem varði Boris Johnson. Ellis neitaði að svara hvort Johnson og kona hans hefðu verið í garðveislunni. Hann vísaði til rannsóknar Sue Gray, ráðuneytisstjóra, á meintum brotum Johnsons á sóttvarnarlögum.

Forsætisráðherra krafinn svara

Það var þó ljóst að það dygði ekki að vísa til rannsóknar á ásökunum um meint brot því margir þingmenn Íhaldsflokksins eru Johnson mjög gramir vegna þess að sífellt eru nýjar uppákomur og ásakanir um brot á reglum og lögum. Þetta bættist ofan á gremju vegna margra annarra mála, klúðursins með Owen Paterson, sem leiddi til taps í aukakosningum í Norður-Shropshire þar sem íhaldsmaður hafði verið þingmaður í nærri tvær aldir.

Fæstir tjáðu sig opinberlega

Fæstir Íhaldsþingmenn voru tilbúnir til að láta hafa eitthvað eftir sér, en það var athyglisvert að skoskir leiðtogar Íhaldsmanna voru tilbúnir að tjá sig. Ruth Davidson, fyrrverandi leiðtogi flokksins í Skotlandi, sem nú situr í lávarðadeildinni, var ómyrk í máli: 

„Þetta er algerlega skelfilegt, það eru ekki aðeins þingmenn Verkamannaflokksins sem eru reiðir, fyrir mörgum kollega minna er það algerlega óskiljanlegt hvað fólk var að hugsa." 

Ættingjar látinna ævareiðir

Það reis einnig reiðibylgja einkum meðal fólks sem hafði misst nána ættingja. Ein þeirra var Hannah Brady sem missti föður sinn. Hún sagði að fyrir sér væri faraldurinn saga um tvo menn, föður sinn sem hefði verið 42 daga í öndunarvél áður en hann dó 55 ára. Hinn, Boris Johnson, hefði einnig verið 55 ára, hann hefði lifað COVID af. Honum hefði þótt í lagi að bjóða til veislu þar sem gestir ættu að koma með eigin veigar. 

Fyrirspurnatíma beðið með eftirvæntingu

Með tilliti til gremju þingmanna með þögn forsætisráðherra og reiði aðstandenda var var ekki skrýtið að fyrirspurnatíma forsætisráðherra í gær var beðið með mikilli eftirvæntingu. Forsætisráðherra og ráðgjafar hans hafa efalítið legið undir feldi til að athuga hvað væri best til að losna úr þessari afar þröngu stöðu. Niðurstaðan var að biðjast afsökunar. 

Baðst afsökunar en samt ekki

Þó að breski forsætisráðherrann segðist vera að biðjast afsökunar og bera fulla ábyrgð sjálfur var hann samt ekki tilbúinn að játa að hafa gert eitthvað rangt. Þegar hann hefði farið út í garðinn til að þakka fólki og farið aftur til vinnu 25 mínútum síðar hefði hann talið að þetta væri vinnufundur. Stjórnarandstæðingar skelltu upp úr við þessa yfirlýsingu en stjórnarþingmenn voru þögulir. 

Vill leyfa Sue Gray að ljúka rannsókninni

Johnson sagði vissulega að milljónir manna á milljónir ofan litu málið öðrum augum, hann færi aðeins fram á að Sue Gray fengi að ljúka rannsókn sinni svo að allir staðreyndir lægju á borðinu. Johnson var afar ólíkur því sem hann er venjulega í fyrirspurnatímanum, bljúgur og nánast auðmjúkur á stundum og gerði sér greinilega far um að hafa stjórn á tilhneigingu sinni að hreyta skætingi í andstæðingana og segja brandara.

„Aumkunarvert sjónarspil“

Sir Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði forsætisráðherra bjóða upp á aumkunarvert sjónarspil þegar öll sund væru lokuð eftir margra mánaða blekkingar. Starmer sagði að vörn Johnsons væri svo fáránlega hlægileg að hún væri móðgun við almenning, hann hefði neyðst til viðurkenna það sem allir vissu; meðan allt var lokað í landinu hefði hann haldið drykkjuveislur í Downingstræti. Og svo sagði Starmer að Johnson ætti að segja af sér. 

Johnson ítrekaði að hann hefði talið veisluna vinnufund

Boris Johnson svarað ekki áskorun um afsögn, í svari sínu hikstaði hann og þegar hann endurtók að hann hefði talið garðveisluna vinnufund hlógu stjórnarandstæðingar aftur. Svo sagði Johnson að hann sæi mikið eftir því sem hefði gerst og að hann bæðist afsökunar. 

Framtíðin forsætisráðherra óviss

Fréttaskýrendur telja að Johnson hafi ætlað að kaupa sér tíma þangað til að rannsókn Sue Gray er lokið eftir viku til tíu daga. Athyglisvert var að enginn stjórnarþingmaður lýsti stuðningi við Johnson í umræðunum. Johnson fór eftir fyrirspurnatímann og hitti þingmenn Íhaldsflokksins til að reyna að telja þá á að styðja sig, en það hefur gengið misvel.

Skotarnir vilja losna við Johnson

Douglas Ross, núverandi leiðtogi Íhaldsflokksins í Skotlandi, lýsti yfir eftir þingfundinn í gær að Johnson yrði að segja af sér. Hann sagði að hver og einn einasti þingmaður Íhaldsflokksins á skoska þinginu, 31 talsins, væri sömu skoðunar. 

Margir tjá sig nafnlaust

Margir aðrir þingmenn Íhaldsflokksins tjáðu sig nafnlaust við fréttamenn um vaxandi óþol gagnvart Johnson, en forsætisráðherra á sér líka staðfasta stuðningsmenn og nokkrir ráðherrar hafa lýst stuðningi við hann, ólíkt því sem var í fyrradag þegar allir voru í felum. Jacob Reeves-Mogg, formaður þingflokksins, varð Johnson í fréttskýringaþætti BBC, Newsnight, í gærkvöld. En það er ljóst að hann stendur völtum fótum. 

Stendur völtum fótum

Laura Kuenssberg, pólítiskur ritstjóri BBC tók þetta saman í tíufréttum BBC í gærkvöld, hún sagði að margir þingmenn hans vildu hann burt og ræddu hvernig ætti að koma honum frá. Það væri þó ekki víst að það gerðist strax en það væri ekki lengur óhugsandi að forsætisráðherrann yrði fokinn innan skamms.

Hátt fall á stuttum tíma

Þó að fréttaskýrendur bendi á að Boris Johnson hafi komist í hann krappan áður og hrist af sér vandræði hafa margir einnig vakið athygli á að hann hafi hrapað mjög hratt í áliti. Það eru aðeins tvö ár síðan að Boris Johnson vann einhvern mesta kosningasigur í breskri stjórnmálasögu og með ólíkindum er að honum skuli hafa tekist að klúðra hlutum jafn rækilega á jafn stuttum tíma.

Lygar rifjaðar upp í þinginu

Johnson mátti líka sitja undir því í gær heyra upprifjun á afar skrautlegri sögu hans og kæruleysislegri umgengni við sannleikann, svo ekki sé meira sagt. Þingmaður Verkamannaflokksins, Toby Perkins, minnti á að Johnson var tvisvar rekinn úr starfi sem blaðamaður fyrir að hafa skrifað lygar. Einhvern tíma hefði Boris Johnsons brugðist ókvæða við, en núna bað hann bara um að þingmaðurinn dokaði við uns rannsókninni væri lokið. 

Málið vekur mikla athygli

Málið hefur vakið gríðarlega athygli og ólíklegasta fólk fylgdist með fyrirspurnatíma forsætisráðherra í gær. Samkvæmt könnun Sky vilja tveir þriðju hlutar kjósenda sem tóku afstöðu í skyndikönnun að forsætisráðherra segi af sér. Verkamannaflokkurinn er með tíu prósentustiga forystu samkvæmt könnun í The Times í dag. Sú könnun var raunar tekin áður en Johnson baðst afsökunar í þinginu.

Hver tæki við?

Eðlilega hafa margir velt fyrir sér hver yrði arftaki Johnsons ef hann hrökklast frá. Enginn augljós eftirmaður er í augsýn. Nefnd hafa verið nöfn Rishi Sunak, fjármálaráðherra, og Liz Truss, utanríkisráðherra. Athyglisvert er hvorugt þeirra skipaði sér í framvarðarsveit þeirra sem vörðu Boris Johnsons. Sunak var ekki einu sinni á þingfundinum og tísti loks í gærkvöld að það hefði verið rétt af Johnson að biðjast afsökunar. Truss skrifaði seint í gærkvöld stuðningsyfirlýsingu á Twitter, en hvorug þeirra.

Erfitt ár framundan

Tímaritið Economist segir að ólíklegt sé að Boris Johnson verði hrakinn frá á næstu dögum, en bendir á að nýbyrjað ár verði bresku ríkisstjórninni erfitt, krísa sé í heilbrigðiskerfinu, verðbólga meiri en um árabil, skattahækkanir framundan og að lífskjör versni. Framtíð forsætisráðherra ráðist af viðbrögðum almennings við þessum vandræðum. Síðasta vika hafi verið ömurlegasta vika á ferli Johnsons, nýbyrjað ár verði verra: 

,,It is not in Number 10's garden, but in supermarkets, petrol forecourts and doctors' waiting-rooms that Mr Johnson's fate will be decided. The past week has been the most miserable of his career. The coming year will be worse."

Íhaldsflokkurinn lætur undan í könnunum

Skoðanakönnunin sem Lundúnablaðið The Times birtir í dag og gerð er af Yougov bendir til að fylgi Íhaldsflokksins hafi minnkað um fimm af hundraði frá könnun í síðustu viku. 28% kjósenda sögðust í nýju könnuninni ætla að kjósa Íhaldsflokkinn. 38 prósent ætla að kjósa Verkamannaflokkinn og hann bætir aðeins einu prósentustigi við fylgi sitt. Yougov spurði áður en Boris Johnson, forsætisráðherra, viðurkenndi í þinginu í gær að hafa verið í garðveislunni í Downingstræti 10 í maí 2020

Meirihluti vill losna við Johnson

Yougov spurði hvort Johnson ætti að segja af sér og reyndust 60 prósent þeirrar skoðunar, þar af nærri 40 prósent þeirra sem kusu Íhaldsflokkinn í síðustu kosningum. Þá segja nærri 80 prósent að forsætisráðherra hafi ekki svarað sannleikanum samkvæmt um veisluhöld í embættisbústað hans. Könnun Sky fréttastofunnar í gær bendir einnig til víðtækrar óánægju með forsætisráðherra. Fréttaskýrendur hafa bent á að Íhaldsflokkurinn geti huggað sig við að þrátt fyrir fylgistap flokksins hafi höfuðandstæðingurinn, Verkamamannaflokkurinn, ekki bætt við sig fylgi sem neinu nemi.