Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Finnst ég finna mun á sjálfstrausti hjá mönnum“

Mynd: RUV / RUV

„Finnst ég finna mun á sjálfstrausti hjá mönnum“

13.01.2022 - 20:23
Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handbolta segir Portúgal vera með gott lið og flinka leikmenn þó vissulega séu skakkaföll hjá þeim á þessu móti. Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik sínum á EM karla í handbolta í Búdapest annað kvöld.

Leikmenn Íslands virðast fullir bjartsýni í upphafi Evrópumótsins. En af hverju?„Við höfum rætt það okkar á milli að við séum tilbúnir og það sé einhver ára yfir liðinu. En það er ekki til neins ef þú sýnir það ekki á vellinum. Þannig við þurfum að byrja vel í fyrsta leik á morgun,“ sagði Bjarki Már við RÚV í dag.

En hvað er það sem gefur íslensku landsliðsmönnunum þessa bjartsýni? „Mér finnst ég finna mun á sjálfstrausti hjá mönnum. Ég ræddi það meira að segja við Aron [Pálmarsson] að síðan við töpuðum fyrir Litáen í maí á síðasta ári, síðan þá finnst mér bara vera meira sjálfstraust í leikmönnum og margir leikmenn búnir að stækka hlutverkin sín hjá sínum liðum. Þeir eru líka orðnir frekari og vilja taka ábyrgð. Það er erfitt að lýsa þessu, en það er eitthvað svoleiðis,“ sagði Bjarki Már.

Áherslubreytingarnar ættu að sjást á morgun

En hvaða breytingar munum við sjá á leik Íslands á morgun frá því á HM í fyrra? „Það eru nokkur atriði sem þið munið sjá á morgun. Við erum búnir að aðlaga varnarleikinn eitthvað aðeins. Fyrir mig er það lífsnauðsynlegt að fá hraðaupphlaupin sem ég nærist á. Vonandi náum við að fá mörg svoleiðis. En þá þurfum við að fá stöður þar sem að kannski markmaðurinn ver hann og hann dettur fyrir hann. Það gerist síður þegar ef við erum að fá mikið af dauðafærum á okkur þar sem markmaðurinn þarf að koma út,“ sagði Bjarki meðal annars.

Allt viðtalið við Bjarka Má má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Leikur Íslands og Portúgals annað kvöld hefst klukkan 19:30 og verður sýndur í beinni útsendingu RÚV. Þá verður honum einnig lýst í útvarpinu á Rás 2. Upphitun í sjónvarpinu í EM stofunni hefst klukkan 19:15.