Bólusetningar innan um brunabíla á Akureyri

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Bólusetning barna er langt á veg komin um land allt. Á Akureyri er bólusett á slökkvistöðinni innan um brunabíla og gervielda. 

Færri í einu og meira rými

Á landsbyggðinni er byrjað að bólusetja í öllum landshlutum. Á Akureyri fara bólusetningarnar, sem og áður, fram á slökkvistöðinni.  Það var byrjað að bólusetja börn 5-11 ára í gær og er gert aftur í dag.

Inga Lára Símonardóttir, yfirhjúkrunarfræðingur, var ein þeirra sem tók á móti börnunum sem komu í bólusetningu. Hún segir undirbúninginn fyrir þennan hóp örlítið frábrugðin því þegar fullorðnir koma í sprautuna. „Við reyndum að horfa á þetta svolítið heildrænt, reyndum að skipta salnum betur upp þannig að þau hefðu meira rými til að vera ein. Einnig tímalega séð, það koma færri í einu, þannig að það myndast minni biðraðir og þau hafi meiri tíma hvert fyrir sig.“

Inga Lára segir börnin frekar spennt að vera sprautuð innan um brunabíla. „Þeir hafa verið hérna starfsmenn slökkvistöðvarinnar að búa hérna til gervielda, börnin horfa á bílana og þeim hefur fundist þetta bara vera virkilega spennandi. Þau sjá spennandi hluti á slökkvistöðinni sem þau hafa ekki séð áður.“

Þátttaka virðist ætla að verða góð

Á Akureyri voru um tólfhundruð börn bólusett í dag og í gær. Börnin fá bóluefni frá Pfizer en einungis einn þriðja af fullum skammti.

Í gær, 12. janúar, var búið að bólusetja tæplega þriðjung 5 til 11 ára barna á landsvísu. Við fyrstu sýn virðist þátttaka í bólusetningum þessa aldurshóps vera sambærileg og þegar byrjað var að bólusetja 12-16 ára börn. Búið er að bólusetja rúmlega 80 prósent þess hóps með alla vega einni bólusetningu. 

Finnst lítið mál að láta sprauta sig

Skjöldur Hólm var staddur á slökkvistöðinni með dætrum sínum tveimur, Heklu og Stefaníu. Hann segir aðbúnaðinn á slökkvistöðinni til fyrirmynda og fagmannlega að öllu staðið. Hann segist ekkert hafa undirbúið stelpurnar sérstaklega fyrir bólusetninguna öðruvísi en að lofa þeim ís eftir sprautuna.

Stefaníu Hólm þótti ekki mikið mál að láta sprauta sig. „Nei, ég fann ekki fyrir þessu og svo fannst mér þetta bara ekkert mál. Mér finnst líka gaman að koma á slökkvistöðina, þá sér maður alla slökkviliðsbílana og svo er bíómynd í gangi og svona.“

Herdís Ólöf Pálsdóttir kom með syni sínum Þormari Alexander Péturssyni segir ákvörðunina um að láta bólusetja hann, ekki hafa verið erfiða. Hún hafi þó skoðað möguleikana áður en hún tók ákvörðun og sér ekki eftir henni.

Þormari fannst þetta bara hafa gengið vel. „Alltaf áður þegar ég var í sprautu eða eitthvað tengt því þá var ég alltaf eitthvað spenntur í höndinni en núna þá var ég bara alls ekki og hugsaði, hvernig í ósköpunum fór ég að þessu?“

Anna Þorbjörg Jónasdóttir