Þurfa að leita til almennra borgara við löggæslustörf

12.01.2022 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Mannekla hjá lögreglunni veldur því að lögreglumenn í dreifbýli þurfa oft að leita til almennra borgara við löggæslustörf og reiða sig á aðstoð í samfélaginu. Félagsfræðingur við Háskólann á Akureyri segir nauðsynlegt að fjölga hér lögreglunemum. Ísland sé með næstfæsta lögreglumenn í Evrópu miðað við höfðatölu.

Nýlega birtist grein þriggja fræðimanna við Háskólann á Akureyri í norrænu fagtímariti, um rannsókn þeirra á högum lögreglumanna í dreifbýli hér á landi. Tekin voru viðtöl við 23 lögreglumenn með starfsreynslu í dreifbýli um upplifun þeirra og reynslu í starfi.

Næstfæstir lögreglumenn í Evrópu miðað við höfðatölu

„Meginþemað var semsagt mannekla og ofurálag,“ segir Guðmundur Oddsson, dósent í félagsfræði við Háskólann á Akureyri og einn greinarhöfunda. „Mannekla er ekki bundin við lögregluna utan höfuðborgarsvæðisins, íslenska lögreglan á við manneklu að stríða í alþjóðlegum samanburði. Ef við berum okkur saman við önnur lönd í Evrópu, þá er Ísland með næstfæsta lögreglumenn miðað við höfðatölu.“

Lögregla í fámenni þarf að treysta meira á samfélagið

Guðmundur segir að mannekla og álag krefjist þess að lögreglumenn við þessar aðstæður séu fjölhæfir, góðir í mannlegum samskiptum og geti nýtt sér ýmsar bjargir í samfélaginu. Oft sé langt í aðstoð og færri lögreglumenn fari jafnan í mál í dreifbýli en þéttbýli. Þá þurfi oft að leita til almennra borgara við löggæslustörf. „Til dæmis að biðja viðstadda um að hjálpa við að stjórna umferð við umferðarslys. Og síðan nefndu aðrir dæmi um á sveitaböllum, að það þyrfti að fá aðstoð einhverra sem voru í björgunarsveitinni.“

Sýnir vel þörfina fyrir fjölgun lögreglumanna

Þetta sýni vel þörfina fyrir að fjölga lögreglumönnum. Á því sé skilningur innan lögreglunnar og hjá stjórnvöldum og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar komi fram að fjölga þurfi lögreglunemum. „Og það er þá vegna þess að fólk áttar sig á því, bæði innan lögreglunnar og utan, að það er alltaf hægt að gera betur,“ segir Guðmundur. Rætt var við hann um þetta á Morgunvaktinni á Rás1.