Þetta kom fram í máli Jean-Yves Le Drian utanríkisráðherra á franska þinginu í gær. Hann kveður brýnt að hert verði á viðræðum i ljósi framferðis Írana og hve hratt kjarnorkuáætlunum þeirra miðar áfram.
Samningaviðræður hófust í nóvember síðastliðnum eftir nokkurra mánaða hlé í kjölfar forsetakosninga í Íran. Upphaflega samkomulagið er frá árinu 2015.
Þá var samþykkt að Íranar hættu að auðga úran og veittu eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar aðgang að kjarnorkuverum sínum. Því var ætlað að tryggja að þeir kæmu sér ekki upp kjarnavopnum. Á móti skyldu Vesturveldin láta af refsiaðgerðum í landinu.
Í kjölfar riftunar Bandaríkjanna á samningnum árið 2018 voru refsiaðgerðir og þvinganar gegn Írönum endurvaktar. Íranir tóku þá að auðga töluvert meira úran en gert er ráð fyrir í upphaflega samningnum.
Meiri bjartsýni gætti í orðum Le Drians á föstudag þegar hann sagði málum miða í rétta átt. Hann sagði þó einnig að honum fyndist mikið liggja við að ljúka samningsgerðinni fljótt.
Daginn eftir sagði Hossein Amir-Abdollahian, íranskur kollegi hans, velgengi viðræðna undanfarna daga mega þakka sanngirni Frakka. Samningamenn þeirra, auk Breta og Þjóðverja fullyrtu í síðasta mánuði að örfáar vikur væru til stefnu í ljósi þess af hve miklu kappi Íranir vinna að kjarnorkuuppbyggingu.
Saeed Khatibzadeh, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans lýsti því svo yfir á mánudag að viðræðunum í Vínarborg, höfuðborg Austurríkis, þætti hafa miðað vel áfram.