Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Jólatré fá framhaldslíf hjá dýrunum

12.01.2022 - 10:08
Innlent · geitur · Hestar · jólatré
Mynd: Sölvi Andrason / Rúv
Það færist í aukana að húsdýrum séu gefin jólatré að naga þegar þau hafa þjónað hlutverki sínu í stofum landsmanna. Geiturnar eru sólgnar í að borða trén á meðan hestar nota þau frekar til dægrastyttingar.

Geitunum þykir barrið gott

Sum þeirra fjörutíuþúsund lifandi jólatrjáa sem er hent eftir jólin á Íslandi enda hjá geitum og hestum.

Vilhjálmur Grímsson, bóndi á Rauðá, heldur nokkrar geitur og eftir jólin fær hann jólatré frá nágrönnum sínum til að gefa geitunum sínum. Hann segir tegundina ekki skipta máli. Geiturnar eru fljótar að naga allt barrið af trjánum og tré sem var sett fyrir nokkrum dögum til þeirra er orðið barrlaust.

Vilhjálmur segir að þegar geiturnar eru úti láta þær oftast lifandi trén vera og eru ekki spenntar fyrir berkinum, en narta frekar í barrið. Geitur séu laufætur.

Hann segir ekki þýða að hamstra gömlum jólatrjám því þær vilja ekki trén þegar þau fara að harðna. „Þá harðnar börkurinn og barrið þornar, þá finnst þeim það ekki gott, þær vilja hafa það grænt.“

Hestar nota jólatrén til leiks

Hestamenn eru líka farnir að setja jólatré hjá dýrum sínum. 

Helga Gunnarsdóttir, hestadýralæknir, segir að það þurfi að passa upp á að hestarnir hafi ekki algjörlega frjálsan aðgang að jólatrjánum að þeir nagi ekki of mikið. „Við fjarlægjum jólatrén þegar þau eru alveg nöguð því það geta farið flísar í munninn, þau geta fengið sár, þau geta krafsað í þau, slasað sig á fótum og annað. Síðan eru líka fjúkandi jólatré slysahætta í hestahverfinu fyrir önnur hross og hestamenn sem eru að ríða út.“

Helga segir áhrifin á meltinguna geta verið örvandi en þá þarf að vera nóg vatn með. 

Helga segir einnig að hestar noti trén til leiks. „Við erum náttúrulega með hrossin á húsi, við erum að taka þau úr náttúrulegu umhverfi sínu sem er haginn. Þá er þetta viss afþreying og leikur sem getur líka skipt þau máli.“

Góð fyrir andlega þáttinn

María Jespersen, hestamaður var á gámasvæðinu til að ná sér í jólatré sem hafði verið hent þangað. „Ég kem hingað alltaf eftir jólin með von um fjársjóð, það eru jólatré handa hestunum mínum. Ég vil furu af því að það eru mjúkar nálar. Þeir naga þetta og svo hafa þeir bara svo gaman að leika sér með þetta, þannig að það er ekki síst það að þetta eru bara leikföng.“

Rósa María Stefánsdóttir, hestamaður, segist gefa hestunum sínum jólatré til að þeir hafi eitthvað fyrir stafni. „Þau eru mikið í afmörkuðu rými, í gerðum eða inni í stíu þar sem þau hafa lítið fyrir stafni og þetta kemur í veg fyrir óyndi hjá þeim, finnst mér. Þeir nota þetta sem afþreyingarefni eða leiktæki.“

Rósa María setur grenitré reglulega til hestanna sinna, ekki bara eftir jólin. Hún segir áhrifin á félagslíf hestanna vera góð. „Hestar hjá mér sem voru svolítið í því að slást og fullharkalegir við hvorn annan hérna úti í gerðinu, þeir fóru bara að leika sér og nota trén í reipitogi og tosa þau á milli sín og hamast með þau. Ég held þetta geri mikið fyrir andlega þáttinn.“