Gagnrýna ómarkvissa nýtingu byggðakvóta

12.01.2022 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Heimastjórn á Borgarfirði eystra vill að stjórnvöld endurskoði hvernig almennum byggðakvóta er úthlutað. Miða ætti við að slíkur kvóti nýtist brothættum byggðum sérstaklega. Borgarfjörður eystri hefur tekið þátt í Brothættum byggðum en fær þó aðeins lágmarkskvóta. Heimastjórn mótmælir einnig harðlega skerðingu á aflaheimildum strandveiða milli ára.

Kvóti til strandveiða var minnkaður með reglugerð ráðherra 21. desember. Í fyrra máttu bátar veiða 10 þúsund tonn á strandveiðum en í ár er þetta skorið niður um 1500 tonn. Verður smábátum því aðeins leyft að veiða 8500 tonn á strandveiðum á þessu ári. Í bókun heimastjórnar á Borgarfirði eystra segir að á undanförnum árum hafi ungir menn haslað sér völl í útgerð á staðnum með strandveiðibátum. Þá sé afli strandveiðibáta stór hluti landaðs afla yfir sumartímann. Því muni skerðingin koma niður á íbúum á Borgarfirði. Þá séu það gríðarlega vonbrigði að ekki séu tryggðir 48 dagar til strandveiða ár hvert. 

Borgarfjörður eystri hefur líka fengið úthlutað byggðakvóta en hann veldur vonbrigðum enn og aftur. Borgarfjörður fær áfram aðeins lágmarkskvóta eða 15 tonn. Alls fá 50 byggðarlög slíkan kvóta og 16 þeirra fá lágmarksúthlutun. Djúpivogur, Flateyri og Tálknafjörður frá hámarksúthlutun eða 300 tonn. Byggðakvótinn dregst mest saman í Þorlákshöfn eða um meira en helming og fer niður í 70 tonn. 

Gagnrýnt hefur verið að úthlutun almenns byggðakvóta sé ómarkviss og dreifist víða. Stærri hluti hans ætti að fara í svokallaða sértæka úthlutun á þeim stöðum þar sem markvisst er unnið að uppbyggingu í tengslum við nýtingu byggðakvótans. Heimastjórn á Borgarfirði eystra ætlar að sækja um slíkan sértækan byggðakvóta en vill einnig að fyrirkomulag almenna byggðakvótans verði endurskoðuð. Stefna ætti að því að sá hluti kvótans nýtist sérstaklega byggðarlögum sem skilgreind eru sem brothætt byggð. 

Af því verkefni berast líka vondar fréttir, því fram kemur í fundargerð heimastjórnar að Byggðastofnun hafi hafnað því að framlengja um eitt ár verkefni í tengslum við brothættar byggðir á Borgarfirði eystra, sem ber yfirskriftina Betri Borgarfjörður. Heimastjórn óskar eftir því við sveitarfélagið Múlaþing að það taki við verkefninu og leggur til að ráðinn verði starfskraftur sem gegni sambærilegu hlutverki og verkefnastjóri Brothættra byggða.