Ekki hægt að þegja af sér málin lengur

12.01.2022 - 09:05
Mynd: RÚV / RÚV
Það hefur gustað um atvinnulífið undanfarið eftir að fimm menn sem eru áhrifamenn í stjórnum stórra fyrirtækja og áberandi í þjóðlífinu hrökkluðust frá störfum vegna ásakana um kynferðisbrot. Í málum sem þessum leita fyrirtæki og stjórnendur þeirra gjarnan til almannatengla.

Í Kjarnanum um helgina kom fram að miðillinn hefði heimildir fyrir því að almannatengill hefði ráðið þremur mannanna í lok nýliðins árs að segja að þetta væri kjaftasaga. Best væri að þegja málið af sér. 

Karen Kjartansdóttir almannatengill segir að sú aðferð stjórnenda fyrirtækja að þegja af sér mál sé hverfandi. Mörg fyrirtæki hafi ákvæði í stefnu sinni um að hægt sé að víkja fólki frá ef orðspori fyrirtækisins er teflt í tvísýnu. Hvaða nálgun beita almannatenglar í málum sem þessum?

„Það eru kannski þrjú meginatriði, svo við séum ekki með langa upptalningu. Það er það sem talsvert hefur verið stundað, að svara ekki neinu, bíða þetta af sér, þegja, virkaði betur hér áður fyrr en það gerir núna. Annað er að segja svolítið kannski til að reyna að drepa í forvitninni og hluta af upplifun eða þinni hlið á málinu og svo er þriðja, það er að veita allan aðgang, láta allt gossa, hér er ég og hvað viltu vita? “ segir Karen.

Hliðverðirnir ekki eins valdamiklir og áður

Hún segir það síðastnefnda geta virkað mjög vel því þá sé litið svo á að málið sé tæmt fyrr og þurfi ekki stíga aftur og aftur inn í málið til að leiðrétta og svara ítrekað fyrir. 

Þetta með að þegja málin í hel, af hverju er það á undanhaldi?

Það má segja að það sé 20. aldar nálgun. Það var miklu auðveldara þegar hefðbundnir fjölmiðlar voru hliðverðir að upplýsingum, það var ekki greint frá málum, komust ekki í hámæli öllu heldur, nema hefðbundnir fjölmiðlar fjölluðu um það.“

Í því samhengi rifjar hún upp gamalt mál úr einkalífi fyrrverandi forsætisráðherra. 

„Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að horfa á Verbúðina í gær. Það rifjaðist upp gamalt mál hans Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi forsætisráðherra. Það var mál sem hann greinir frá í ævisögu sinni, hatrammt deilumál við bandaríska barnsmóður sína, sem fer aldrei í íslenska fjölmiðla. Það er talsvert talað um það í bandarískum fjölmiðlum en íslenskir fjölmiðlar snertu aldrei á því. Það var einfaldlega vegna þess að hann gat beint áhrifum sínum og valdi til að fá þá til að snerta ekki á því. Þetta dugar ekki í dag.“ segir Karen.

Karen tekur fram að það hafi þó verið af allt öðrum toga en þau mál sem nú eru í umræðunni. En með tilkomu samfélagsmiðla og hlaðvarpa, og aðgengi fólks að nánast hverjum sem er, geti hver sem er miðlað reynslu sinni og vakið athygli í samfélaginu.

Skortir faglega umræðu

Í tilkynningu Íseyjar útflutnings í fyrrakvöld vegna brottreksturs Ara Edwald úr starfi framkvæmdastjóra var talað um vatnaskil sem hafi orðið til þess að stjórnin ákvað að segja honum upp. Karen segir að þau vatnaskil felist í því að fjallað hafi verið um málið í stórum fjölmiðlum. Þeir hafi enn meira vægi í umræðunni en hinir smærri.

„Það er kannski þess vegna sem þegar eitthvað er að malla, kjaftasaga, frásögn á samfélagsmiðlum. Það er kannski þess vegna sem fólk hefur undanfarið reynt að þegja af því að það veit að ef það stígur inn í umræðuna, jafnvel hótar að kæra þann sem er að tilgreina eitthvað á samfélagsmiðlum, þá verður það opinbert. Þá er auðveldara fyrir hefðbundnu fjölmiðlana að fara inn í þetta af því að þá ert þú búinn að stíga þetta fyrsta skref, taka málið úr samfélagsmiðlaumræðunni.“

En í ykkar störfum, í þeim málum sem þið fáið inn á borð til ykkar, eruð þið bundin trúnaði eða ber ykkur einhver skylda til að tilkynna til yfirvalda ef eitthvað ólöglegt á sér stað, eða bregðast við ef það er löglegt en siðlaust?

„Það má alveg viðurkenna að það vantar töluvert faglega umræðu meðal almannatengla á Íslandi. Sú stétt eins og aðrar hefði gott af því að fara yfir siðferðisleg álitamál og siðareglur hverju sinni. Þetta er rétt eins og fréttir, og vinna fjölmiðla, þetta er ekki alltaf klippt og skorið. Þetta er ekki stærðfræði. Það sem er viðeigandi á hverjum tíma passar kannski alls ekki seinna. Það þarf að átta sig á því og greina þetta. Ef við gerum það ekki lendum við á skjön við ríkjandi viðhorf. En samt sem áður má líka nefna að oft er sagt að „það megi ekkert lengur“ eða  „það er allt bannað“. Það sem er til umræðu akkúrat núna, þetta heitasta mál, mál Vítalíu. Ekkert af þessu hefur þótt held ég í lagi, kannski einhvern tíma með einhverju karlagrobbi var hægt að gera lítið úr svona málum, en ég held að svona mál hafi alltaf þótt ósiðleg. Valdaójafnvægið var þannig að það þótti í rauninni í lagi að halla frekar á annan einstaklinginn.“ segir Karen.

Hún segir mörg fyrirtæki, sér í lagi stór fyrirtæki vera með ákvæði um orðsporsáhættu í stefnu sinni.

„Í þessu tilfelli verður að horfa til orðsporsáhættu og hefði kannski þurft að gera fyrr. Hagsmunir fólks og fyrirtækja fara ekki alltaf saman. Fyrirtæki hafa mjög oft stefnu þegar kemur að orðsporsáhættu, þá er ekki bara verið að tala um atriði sem s.s. eru beint ólögleg heldur atriði sem geta skaðað orðspor fyrirtækisins. Það þykir ekki gott að vera með stjórnarfólk sem ítrekað hefur orðið uppvíst, eða það eru miklar sögur um að það sé óheiðarlegt í einkalífi. Það þykir geta skaðað orðspor fyrirtækisins og það þykir líka kannski geta bent til þess að viðkomandi sé óheiðarlegur í sínum störfum. Ef þú ert ítrekað óheiðarlegur í einkalífi. Það er horft til þess og við getum alveg rennt í gegnum stefnur fjölda fyrirtækja til að draga úr orðsporsáhættu sem draga þetta fram. En öllum getur okkur orðið á í lífinu og ég hef alltaf skilið það þannig að fólk almennt og almenningur sé frekar reiðubúinn að fyrirgefa þegar fólki verður á. Við erum öll breysk.“ segir Karen.

Ekki stærðfræði

Fólk upplifi atvik með misjöfnum hætti út frá reynslu sinni og skilningi. Sannleikurinn er að hennar mati flókið fyrirbæri. En hvaða reglur gilda um ráðleggingar almannatengla?

„Almannatengsl eru mjög langt frá því að vera eins og einhver stærðfræði en ef það er einhver regla í gildi, og alltaf í gildi, þá er það að það má ekki segja ósatt. Það má ekki segja eitthvað sem gengur gjörsamlega í berhögg við það sem átti sér stað. Við getum haft ólíkan skilning en það er ekki hægt að ljúga sig frá þessu, því það er einstaklega ósjálfbær aðferð í hverju sem er, og öllum samskiptum. Ykkar stétt, almannatenglar, er hún með einhverjar siðareglur til að mynda? Við erum ekki nógu dugleg í faglegri umræðu eins og ég sagði, við mættum alveg, við þurfum að gefa í með þetta því við erum það oft fengin til að fara yfir mál í fjölmiðlum. Veruleikinn er að verða flóknari þannig að ég held að við ættum að taka það til okkar að ræða frekar gagnrýnið um okkar störf.“ segir Karen.

Bændur og fleiri hafa gagnrýnt að stjórn Íseyjar útflutnings hafi gripið of seint í taumana og sagt Ara Edwald upp. Stjórnin vissi af málinu frá því í haust þegar orðrómur var um það. En er það nóg til að grípa til aðgerða?

„Það hefði getað lágmarkað skaðann að bregðast fyrr við, að viðkomandi hefði brugðist við, beðist afsökunar á eftir og gert málið upp og fyrirtækið hefði hreinlega krafist þess. Svo við tökum það sem dæmi, hefði þeim verið stætt á því að senda forstjórann í leyfi þegar þetta var bara orðrómur? Nú veit ég ekki hvað átti sér stað alveg þarna inni í fyrirtækinu. Þetta mál er svolítið nýtt að því leyti að það er ekki endilega verið að tala um ætluð brot, mögulega eru brot þarna inni en þetta er aðallega þetta þykir ósiðlegt og þarna er verið að misnota valdastöðu. Persónulega held ég að fyrirtækið hefði átt að gera skýra kröfu til þess sem var sakaður um þessa háttsemi, en ég veit í rauninni ekki hvernig það var, stundum er erfitt að bregðast við. Það eru kannski ekki til ferlar til að víkja fólki úr sæti en manni sýnist á þessu að það hafi verið reynt að bíða það af sér.“ segir Karen.

Rætt var við hana í Speglinum. Pistilinn má heyra hér að ofan.