Dauða svartfugla rekur á land á Austfjörðum

12.01.2022 - 18:09
Mynd með færslu
Þessar íslensku langvíur eru svo heppnar að vera við hestaheilsu Mynd: Náttúrustofa Norðausturlands - RÚV
Hátt á þriðja hundrað svartfuglar hafa fundist dauðir í fjörum á Austfjörðum. Flestir fuglanna voru mjög horaðir og því talið líklegast að þeir hafi drepist úr hungri.

Fyrr í vikunni tóku að berast fréttir af dauðum svartfuglum í fjörum fyrir austan. Starfsmenn Náttúrustofu Austurlands könnuðu í kjölfarið fjörur frá Berufirði að botni Reyðarfjarðar og fundu 273 svartfuglshræ.

Sjálfsagt hafi talsvert meira drepist

Hálfdán Helgi Helgason, fuglavistfræðingur hjá náttúrustofunni, segir ekki gott að áætla hve mikill fugladauðinn sé í heild. Sjálfsagt hafi talsvert meira drepist því í svona tilfellum reki aðeins brot af dauðum fugli á land.

Líklegast að fuglinn hafi drepist úr hungri

Hálfdán segir að meirihlutinn af þeim fuglum sem voru heillegastir hafi verið mjög horaðir og það bendi til þess að fuglinn hafi drepist úr hungri. Sjófugl eigi erfitt með að afla sér fæðu í vondu veðri, en óveður hafi gengi yfir hafið við Ísland undanfarið. Þá geti eitthvað af fugli hafa særst við veiðar en gríðarmikil svartfuglaveiði hefur verið á Austfjörðum í haust og vetur. Ólíklegt sé að fuglaflensa sé orsökin þó það sé ekki útilokað.

Sýni send til rannsókna

Matvælastofnun hefur nú fengið sýni til rannsókna og Hálfdán segir áfram fylgst með. Hann hvetur fólk sem verður vart við dauðan, eða deyjandi fugl, í fjörum að láta vita.