Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Bugun kennara geti litað niðurstöðu atkvæðagreiðslu

12.01.2022 - 16:15
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Formaður félags grunnskólakennara segir að kennarar séu að þrotum komnir og að ástandið í skólum landsins sé alvarlegt. Staðan geti haft áhrif á afstöðu kennara til nýrra kjarasamninga sem þeir greiða nú atkvæði um.

Samþykktu nýjan samning í fyrra

Félag grunnskólakennara og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir nýjan kjarasamning undir lok síðasta árs. Samningurinn gildir til 31. mars 2023. Atkvæðagreiðslu um nýjan samning lýkur um hádegi á morgun og mun niðurstaða liggja fyrir skömmu síðar. Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður félags grunnskólakennara, segir um helming félagsfólks hafa greitt atkvæði. 

„Það er alveg eðlilegt að það sé kannski svona á síðustu stundu, ekki síst í ljósi þess sem að núna er. Það er gríðarlegt álag úti í skólunum og kennarar hafa haft minni tækifæri til þess að ræða saman heldur en kannski gerist í venjulegu árferði,“ segir Þorgerður Laufey. 

Ástandið aldrei verið verra

Sóttvarnaaðgerðir hafa haft veruleg áhrif á starfsemi skólanna og starfsaðstæður kennara sem Þorgerður segir að séu að bugast undan álagi. Ástandið hafi aldrei verið jafn slæmt. 

„Segja má að kennarar séu í þessum töluðu orðum að róa lífróður til þess að reyna að halda skólastarfi gangandi og sjá til þess að lögboðin kennsla sé til staðar fyrir nemendur. Hljóðið í kennurum er þungt og það verður að segjast eins og er að það er beðið með öndina í hálsinum eftir hverju minnisblaði sem kemur.“

Getur haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar

Þorgerður Laufey segir að ástandið geti haft áhrif á afstöðu kennara til nýrra kjarasamninga. 

„Það að vera í þessu ástandi sem núna er, þarna getur auðvitað komið til að kennarar séu þá frekar að láta óánægju sína í ljós með starfsaðstæður sínar eins og þær eru í dag, heldur en endilega það sem borið er á borð fyrir þau í samningum sem slíkum.“

„Staðreyndin er að félagsfólk er að þrotum komið og ástandið er alvarlegt í skólum landsins og það má gera ráð fyrir því að þetta hafi bein áhrif á niðurstöðu kosninga, þó það sé leitt að þá er alveg við því að búast.“

Þó þetta sé samhangandi treysti hún kennurum til þess að taka afstöðu til samningsins sem slíks enda sé hann afrakstur langrar og mikillar vinnu. 

„Ég treysti kennurum til að taka afstöðu til þessa sem liggur á borðinu og gera það út frá þeim samningi sem þar er og síðan förum við þá í aðra mikilvæga vinnu sem fram undan er.“