
Biden segir brýnt að gera umbætur á kosningakerfinu
Þetta kom fram í ræðu sem Biden hélt í Atlantaborg í Georgíuríki í gær. Forsetinn segir núverandi aðferðir við framkvæmd kosninga draga úr vilja ýmissa hópa til að mæta á kjörstað.
Því er haldið fram að kosningalög í ríkjum þar sem Repúblikanar eru ráðandi skaði kosningarétt minnihlutahópa og dragi úr gildi utankjörstaða- og póstatkvæða. Það sé gert til að draga úr stuðningi við Demókrataflokkinn.
Fyrir Öldungadeild Bandaríkjaþings liggja nú tvö frumvörp sem ætlað er að bæta þar úr. Til að tryggja þeim brautargengi leggur Biden til að látið verði af kröfu um að aukinn meirihluta atkvæða þingmanna þurfi til staðfestingar frumvarpa.
„Hvers einasta þingmanns verður minnst fyrir hvaða afstöðu hann tók í atkvæðagreiðslunni. Það er ekki nokkur leið að forðast það,“ sagði Biden í ræðu sinni.
Flestir öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins styðja frumvörpin en reglum samkvæmt þarf sextíu atkvæði af hundrað til að þau teljist samþykkt. Tveir úr íhaldssamari armi flokksins hafa þó lýst efasemdum sínum.
Biden segir því nauðsyn að breyta reglum deildarinnar um stundarsakir til að tryggja staðfestingu frumvarpanna, reynist fulltrúar Repúblikana ekki samvinnufúsir. Hann hvetur sömuleiðis samflokksmenn sína til samstöðu.
Repúblikanar í öldungadeildinni eru allir sem einn andvígir frumvörpunum og segja þau tilraun til að færa ákvörðunarvaldið um framkvæmd kosninga frá hverju ríki fyrir sig yfir til alríkisins.
Sömuleiðis staðhæfa þeir að verði látið af því að krefjast aukins meirihluta í þetta sinn opni það flóðgáttir þar sem það verði heimilað vegna hvers kyns mála.
Mitch McConnell leiðtogi Repúblikana segir hugmyndina lýsa vilja Demókrata til að knésetja stofnanir ríkisins til þess að fá þá niðurstöðu sem þeir æski helst.
Takist Biden ekki að fá samþykki fyrir því að sneiða hjá kröfunni um aukinn meirihluta í Öldungadeildinni ná frumvörpin varla brautargengi. Það verður þá einnig til þess að veikja pólitíska stöðu forsetans.