Vök keyrir þetta í gang og Laddi vill vera memm

Mynd: Sveinn Speight / Ertu memm?

Vök keyrir þetta í gang og Laddi vill vera memm

11.01.2022 - 16:35

Höfundar

Enn hressist útgáfan og að þessu sinni er Undirölduþáttur dagsins að mestu með lögum frá því herrans ári 2022. Meðal þess helsta eru ný lög frá Vök og Ladda en önnur með nýja tónlist eru Malen, Gillon, BaraBaldur, Áslaug María, Guðný María og Rúnar Þór.

Vök - Stadium

Hljómsveitin Vök var dugleg að senda frá sér lög í fyrra og byrjar nýja árið með laginu Stadium sem hlýtur að þýða að það fari að styttast í stóra plötu frá tríóinu sem er eins og að undanförnu skipað þeim Margréti Rán, Einari Hrafni Stefánsson og Bergi Einari Dagbjartssyni.


Malen - Feel Like

Tónlistarkonan Malen Áskelsdóttir er tuttugu og tveggja ára og kemur frá Borgarfirði eystra. Hún var að senda frá sér eigið lagið og texta - Feel Like þar sem hún fékk aðstoð við upptökur frá pródúsernum Bjarka Ómarssyni eða Bomarz.


Áslaug María - Inn í mér

Tónlistarkonan Áslaug María Þórisdóttir Dungal hefur sent frá sér þröngskífuna Óviss þar sem hún syngur og leikur á gítar sex frumsamin lög, en lagið Inn í mér opnar plötuna.


BaraBaldur - Soon

Baldur Einarsson er 19 ára strákur frá Akranesi sem er uppalinn í Árbæ. Hann hefur sent frá sér sitt fyrsta lag undir nafninu BaraBaldur en lagið heitir Soon. Baldur er ekki óvanur sviðsljósinu og hóf leiklistarferilinn með stóru hlutverki í Hjartasteini og hef unnið til alþjóðlegra verðlauna fyrir leik í þeirri mynd.


Laddi - Ertu memm

Laddi hefur sent frá sér lagið Ertu memm? Lagið er eftir hann sjálfan en textinn er eftir Braga Valdimar Skúlason. Það var síðan Guðmundur Kristinn Jónsson sem sá um upptökur, hljóðblöndun og masteringu en lagið verður að finna á plötunni Það er aldeilis sem er safn hans vinsælustu laga.


Gillon - Tímasglas

Tónlistarmaðurinn og ljóðskáldið Gísli Þór Ólafsson hefur sent frá sér fjórða lagið af væntanlegri plötu sinni Bláturnablús sem heitir Tímansglas. Sigfús Arnar Benediktsson hafði umsjón með upptöku.


Rúnar Þór - Speglun

Rúnar Þór hefur verið lengi að og hefur nú sent frá nýtt lag sem heitir Speglun og er af væntanlegri hljómplötu og mynd Rúnars Þórs. Lagið er eftir hann sjálfan en Magnús Þór Sigmundsson á textann.


Guðný María - Ábyrgðin á þér

Tónlistarkonan Guðný María lætur ekkert stoppa sig og hefur sent frá sér lagið Ábyrgðin á þér en lög hennar Akureyrar beib og Okkar okkar páskar eru löngu orðin klassísk.