Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Mjög krítískir dagar framundan segir heilbrigisráðherra

Mynd: RÚV -Guðmundur Bergkvist / RÚV
Ríkisstjórnin framlengdi í morgun samkomutakmarkanir í þrjár vikur. Landlæknir og sóttvarnalæknir vilja að stjórnvöld íhugi alvarlega að herða aðgerðir.

1191 innanlandssmit greindist í gær, tæpur helmingur utan sóttkvíar. Á landamærunum greindist aðeins 41. 

Núgildandi reglur tóku gildi á Þorláksmessu og væntanlega þekkja þær allir nú þegar. 

„Ég vil þó ítreka sem kemur skýrt fram í minnisblaði bæði landlæknis sem að fer vel yfir stöðuna í heilbrigðiskerfinu og sóttvarnalæknis að við sko það eru mjög krítískir dagar hér fram undan,“ sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra við tröppur Ráðherrabústaðins eftir ríkisstjórnarfund sem lauk á hádegi. 

Alma og Þórólfur vilja að íhugað verði alvarlega að herða

Ríkisstjórnin samþykkti tillögur í minnisblaði sóttvarnalæknis frá 5. janúar. Hins vegar sendu hann og landlæknir annað minnisblað dagsett í gær um stöðu heilbrigðiskerfisins og þróun faraldursins. Í því er þungt hljóð og gengið lengra. 

Þar segir að gildandi sóttvarnaráðstafanir haldi faraldrinum í besta falli í línulegum vexti en bæli hann ekki niður eins og ákjósanlegt væri. 

Með óbreyttri þróun stefni í algjört neyðarástand í heilbrigðiskerfi landsins. 

Stjórnvöld þurfa því að íhuga alvarlega hvort ekki sé tímabært að gripið verði til hertra samfélagslegra aðgerða til að ná betri tökum á faraldrinum samhliða áframhaldandi uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. 

Þurfum að taka á honum stóra okkar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist bjartsýn vegna þess að omíkron afbrigði veirunnar virðist vægara en delta afbrigðið.
„En góðu tíðindin eru þau að við erum að sjá í raun og veru fleiri og fleiri gögn renna stoðum undir það að það er miklu lægra hlutfall þeirra, sem smitast af omíkron, sem leggst inn á inn á spítala, miklu lægra hlutfall sem er að veikjast alvarlega. Við erum enn þá með töluverðan fjölda sem er hins vegar að smitast af delta-afbrigðinu eins og heilbrigðisráðherra hefur vafalaust farið yfir. Og vegna þess að smitin eru svo mörg að þá er álagið mjög mikið. Og við þurfum eins og ég segi að taka á honum stóra okkar og standa með fólkinu okkar sem er auðvitað í þessu núna, 24 tíma á sólarhring að sinna veiku fólki. Og það er auðvitað markverður árangur sem bara hefur hreinlega náðst hér á landi þegar við horfum á það hvernig hefur tekist að hlúa að okkar fólki sem hefur veikst.