Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Metár að baki hjá Rolls Royce

epa06784508 The new model of SUV Rolls-Royce Cullinan (R) on display at Rolls-Royce Motor Cars Abu Dhabi Motors in Abu Dhabi, United Arab Emirates, 04 June 2018. The new Cullinan, sold for around 2.2 million emirati dirham (about 602,245 USD), is powered by 6.75-litre twin-turbo 12 valve engine, with all-wheel steer system in addition to all-wheel drive.  EPA-EFE/ALI HAIDER
Rauður RR Cullinan-jeppi á sölustað í Abu Dhabi. Nýir lúxusjeppar af þessari tegund fást erlendis fyrir jafnvirði 45 - 90 milljóna króna, eftir því hver útfærslan er. Mynd: epa
Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur gert mörgum fyrirtækjum skráveifu og jafnvel svipt þau rekstrargrundvellinum á meðan önnur hafa plumað sig ágætlega og sum meira að segja betur en áður. Eðalvagnaframleiðandinn Rolls Royce fellur í seinni flokkinn. Fyrirtækið seldi nær helmingi fleiri bíla í fyrra en árið á undan og raunar fleiri en nokkru sinni fyrr í 117 ára sögu fyrirtækisins.

Þessi sögufrægi og goðsagankenndi breski bílaframleiðandi, sem nú er í eigu þýsku bílaverksmiðjanna BMW, seldi 5.586 lúxuskerrur í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Rolls Royce sendi frá sér í gær. Þar segir forstjórinn, Torsten Müller-Ötvös, að hið óútreiknanlega 2021 hafi verið „stórkostlegt ár“ fyrir fyrirtækið.

„Í lúxus-geiranum snerist þetta ekki svo mikið um að finna viðskiptavini, heldur um það, að ná að framleiða nóg til að anna gríðarlegri eftirspurninni,“ skrifar forstjórinn.

Rafmagnsrolls á leiðinni

Pöntunum rigndi inn frá öllum heimshornum. Mest seldist af grunnútgáfunni Rolls Royce Ghost, en 2,6 tonna lúxusjeppinn Rolls Royce Cullinan, sem kostar frá 45 og upp í 90 milljónir króna, naut líka mikilla vinsælda.

Horfurnar eru engu verri í ár og framleiðsla fyrstu þriggja ársfjórðunganna er þegar upppöntuð. Fyrsti rafmagnsrollsinn, Rolls Royce Spectre, er væntanlegur á markað á næsta ári og fyrirtækið ráðgerir að rafmagnsvæða alla sína bíla fyrir árslok 2030.