
Metár að baki hjá Rolls Royce
Þessi sögufrægi og goðsagankenndi breski bílaframleiðandi, sem nú er í eigu þýsku bílaverksmiðjanna BMW, seldi 5.586 lúxuskerrur í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Rolls Royce sendi frá sér í gær. Þar segir forstjórinn, Torsten Müller-Ötvös, að hið óútreiknanlega 2021 hafi verið „stórkostlegt ár“ fyrir fyrirtækið.
„Í lúxus-geiranum snerist þetta ekki svo mikið um að finna viðskiptavini, heldur um það, að ná að framleiða nóg til að anna gríðarlegri eftirspurninni,“ skrifar forstjórinn.
Rafmagnsrolls á leiðinni
Pöntunum rigndi inn frá öllum heimshornum. Mest seldist af grunnútgáfunni Rolls Royce Ghost, en 2,6 tonna lúxusjeppinn Rolls Royce Cullinan, sem kostar frá 45 og upp í 90 milljónir króna, naut líka mikilla vinsælda.
Horfurnar eru engu verri í ár og framleiðsla fyrstu þriggja ársfjórðunganna er þegar upppöntuð. Fyrsti rafmagnsrollsinn, Rolls Royce Spectre, er væntanlegur á markað á næsta ári og fyrirtækið ráðgerir að rafmagnsvæða alla sína bíla fyrir árslok 2030.