Hvassviðri og lélegt skyggni á vestanverðu landinu

11.01.2022 - 10:18
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir vegna óveðurs á vestanverðu landinu í kvöld og í nótt. Suðvestanstormur gengur þá yfir stóran hluta landsins með tilheyrandi éljum. Það veldur lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Þetta veður gengur niður í nótt en íbúar á Vestfjörðum og við Breiðafjörð eru ekki sloppnir þar með því nýjar viðvaranir taka gildi þar í fyrramálið og gilda fram á fimmtudag.

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir á Suðurlandi og Vesturlandi, við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra vegna óveðursins í kvöld og nótt. Viðbúið er að vindur verði á bilinu 15 til 23 metrar á sekúndu og él. Veðrið veldur bæði slæmu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Veðrið gengur niður í nótt en stundin milli stríða verður stutt á Vestfjörðum og við Breiðafjörð því nýjar viðvaranir taka gildi þar klukkan níu og tíu í fyrramálið. Þá verður nokkuð hvassara og áframhaldandi él. Veðrið gengur ekki niður fyrr en aðfaranótt fimmtudags á Vestfjörðum og á hádegi á fimmtudag við Breiðafjörð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV