Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hugað verði betur að breyttum vinnutíma

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Félagsmálaráðherra vill að hugað verði betur að breyttum vinnutíma í næstu kjarasamningum og að komið verði betur til móts við fólk með skerta vinnugetu.

Ánægður með að viðræður byrji snemma

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra vill sjá breytingar á vinnumarkaði á þann hátt að hugað verði betur að breyttum vinnutíma og að komið verði meira til móts við fólk með skerta vinnugetu. Félagsmálaráðherra er með vinnumarkaðsmál og húsnæðismál á sinni könnu. Spegillinn ræddi við Guðmund Inga um ástand og horfur í þessum málaflokkum. Hann er ánægður með að viðsemjendur á vinnumarkaði vilji tala sem fyrst saman á nýju ári. 

Samningur taki við af samningi

„Þetta er svona eitt af því sem að við erum öll sammála um" segir Guðmundur Ingi. „Að hver samningur taki við af fyrri samningi. Að við séum ekki án samninga, eins og stundum hefur verið í allt of langan tíma. Þannig að þetta er gríðarlega jákvætt.

Stjórnvöld gerðu það í aðdraganda síðustu samninga að halda fjölmarga fundi með aðilum vinnumarkaðarins. Við erum að stefna að þvi að gera það sama núna. Á þessum fundum er farið yfir sviðið þannig að allir séu meðvitaðir um hvað sé að gerast á hverjum stað. Stjórnvöld koma með ákveðinn stuðning inn í þá vinnu því við erum öll sammála um það, og ég hef heyrt það frá aðilum vinnumarkaðarins, að reyna að bæta ferlið í kringum gerð kjarasamninga".

Bæta vinnubrögðin

„Kannski getum við kallað það að bæta vinnubrögð þar sem er einmitt sest fyrr niður. Ríkissáttasemjari hefur þegar hafið vinnu þar sem mér finnst ríma í þessa átt með námsskeiðshaldi, námsstefnum, að opna svolítið embættið fyrir samningsaðilum þannig að þeir geti bæði nýtt sér aðstöðu, en ekki síður  komið saman fyrr og fengið aðstoð við það að fara inn í svona skilvirkari og kannski árangursríkari ferli í kringum gerð kjarasamninga" segir félagsmálaráðherra. 

Breytt hlutverk ríkissáttasemjara

Í nýja stjórnarsáttmálanum er kveðið á um breytt og skilvirkara hlutverk ríkissáttasemjara við gerð kjarasamninga. Nokkrir forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar hafa efast um þetta breytta hlutverk og óttast að ríkissáttasemjari fái völd til þess t.a.m. að aflýsa verkfalli. Guðmundur segist vel skilja að verkalýðshreyfingin vilji ekki missa þann grundvallarrétt að geta sett á verkfall.

Hugmyndin ekki að taka verkfallsréttinn

„Hugmyndin með þessari breytingu hjá ríkissáttasemjara er ekki að taka verkfallsréttinn af vinnandi fólki. Frekar að búa til ferli sem verður til þess að við þurfum ekki að grípa til þessa vopns sem eðlilega er mjög heilagt í vopnabúri þeirra sem eru að semja við atvinnurekendur eða stjórnvöld" segir Guðmundur Ingi.   

Standast forsendur lífskjarasamninga

Lífskjarasamningarnir voru undirritaðir í byrjun apríl 2019, tæpu ári áður en Covid-faraldurinn skall á, og renna út í nóvember á þessu ári. Telur félagsmálaráðherra að forsendur hans standist nú. 

„Ég vil horfa á þetta þannig að aðilar vinnumarkaðarins kusu að hrófla ekki við samningunum núna í september" segir Guðmundur Ingi. „Það er staðan í dag. Það eru samningar fram undan og við þurfum að takast á við það verkefni miðað við þær aðstæður sem uppi eru í dag".

Þurfum að horfa til lengri tíma en tveggja til þriggja ára 

„Ég held að við þurfum að horfa til enn lengri tíma en tveggja til þriggja ára þegar við horfum til samninga á vinnumarkaði. Kannski eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eitt besta leiðarljósið sem við höfum þar eins og í svo mörgu öðru sem við erum að takast á við. Bæði hjá hinu opinbera og utan þess".

Hvernig á að útrýma kynbundnum launamun?

„Þar er hægt að nefna markmiðið um að engin fátækt skuli vera í heiminum, markmið sem snúa að heilsu og afkomu fólks, að fólk nái endum saman og hafi þak yfir höfuðið. Hvernig ætlum við að þróa vinnumarkaðinn að teknu tilliti til tæknibreytinga og  loftslagsbreytinga sem eru að eiga sér stað?  

Hvernig ætlum við að útrýma kynbundnum launamun? Atriði eins og stytting vinnuvikunnar sem ég tel að hafi verið eitt stærsta skrefið í síðustu samningum er dæmi um eitthvað sem hefur verið lengi á dagskránni. Ég held að horft verði á lífskjarasamningana 2019 og samningana sem voru gerðir í kjölfar þeirra ekki síst í sögulegu tilliti með tilliti til styttingar vinnuvikunnar". 

Heyra má ítarlegra viðtal við Guðmund Inga Guðbrandsson félagsmálaráðherra í spilaranum hér að ofan