Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Haraldur segir leikskólakerfið hafa vaxið of hratt

Mynd: RÚV / RÚV
Haraldur Freyr Gíslason formaður Félags leikskólakennara segir leikskólakerfið hafi vaxið of hratt. Það sé ríkur þáttur í að ekki hafi tekist að fjölga kennurunum hlutfallslega þrátt fyrir fjölgun í leikskólakennaranámi.

Margt hafi verið gert til að bæta starfsaðstæður en Haraldur segir reynsluna ekki nægilega góða enda leikskólinn viðkvæmur fyrir mönnun. Hann segir það geta verið sameiginlegt markmið leikskólakennara og sveitarfélaga að bæta mönnun á leikskólum. 

Hins vegar þurfi að gera að gera greinarmun á mönnun sem bæti starfsumhverfið og kennsluna í heild og hvað ekki. Það sem bæti geti verið meðal annars fjölgun stöðugilda vegna undirbúningstíma kennara. Það bæti ekki mönnunina að taka inn sífellt yngri börn.

„Við ráðum ekki við ofvöxt kerfisins umfram efni og gæði. Samt erum við með mikla fjölgun í leikskólakennaranáminu ár eftir ár. Samhliða er verið að stækka kerfið of hratt.“ Sveitarfélög þurfi að taka varnaraðarorð leikskólakennara þess efnis alvarlega. 

„Það sem hefur verið gert hingað til hefur ekki náð að fjölga leikskólakennurum hlutfallslega undanfarin ár. Og svo má kannski benda á það líka að við erum náttúrulega eftir að þetta eina leyfisbréf erum við að keppa við grunnskólastigið um hæfa kennara.“ 

Haraldur segir að jafnhliða því að halda aftur af stækkun kerfisins þurfi að hækka laun áfram og bæta starfsaðstæður. Leikskólakennarar séu ennþá undir í keppni við grunnskólakennara hvað varðar starfsaðstæður. 

Borgarstjórn hætti í síðustu viku við að greiða starfsfólki leikskóla 75 þúsund krónur fyrir að stuðla að ráðningum á leikskóla. Haraldur bendir á að starfsfólki við menntun hafi fjölgað mjög undanfarinn aldarfjórðung. 

Haraldur segir ekki hægt að koma til móts við alla en tillagan var einn liður í átaki borgarinnar til fjölgunar starfsfólks. Svo bregðast megi við fjölgun leikskólaplássa næstu þrjú til fjögur ár er búist við að ráða þurfi tvöhundruð og fimmtíu til þrjúhundruð starfsmenn til viðbótar. 

„Það er alveg til töfralausn - við getum hækkað upp í þrjár milljónir á morgun og þá verður offramboð á leikskólakennurum eftir fimm ár. Það er skyndilausn en það er ekki að fara að gerast á morgun.“