Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vinna að bættu umferðaröryggi smáfarartækja

10.01.2022 - 11:40
Mynd með færslu
 Mynd: Arto Alanenpää - Wikimedia Commons
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp til þess að smíða tillögur að úrbótum á stöðu smáfarartækja, til dæmis rafhlaupahjóla og léttra bifhjóla, í umferðinni. Þetta segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Tryggja umferðaröryggi og bæta innviði

Starfshópurinn mun kortleggja stöðu þessara farartækja og vinna tillögur sem eiga að tryggja umferðaröryggi og bæta innviði. Tillögunum skal skilað fyrir 1. júní í ár.

Eins og segir í tilkynningunni hafa þessi litlu farartæki orðið nokkuð áberandi og mikilvægur ferðamáti á skömmum tíma. Þau hafi skapað tækifæri „til jákvæðra breytinga á ferðavenjum fólks“.

Fyrsta banaslysið

Samhliða mikilli aukningu rafhlaupahjólaferða hefur slysum fjölgað þó nokkuð. Fram kom í október að slys séu þó ekki algeng miðað við þann fjölda ferða sem eru farnar.

Fyrsta banaslysið á rafhlaupahjóli hér á landi varð í nóvember norðan við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar þegar rafmagnshlaupahjól og létt bifhjól, hvort tveggja smáfarartæki, skullu saman. 

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að til standi að stuðla að umferðaröryggi í tengslum við smáfarartæki og sömuleiðis styðja við fjölbreyttari og umhverfisvænni ferðamáta.

Tillögur liggi fyrir í sumar

„Því er stefnt að því að sumarið 2022 liggi fyrir tillögur að breytingum á regluverki smáfarartækja, ásamt áherslum og aðgerðum um örugga notkun, búnað og umhverfi smáfarartækja hér a landi sem samræmist þessum markmiðum,“ segir í tilkynningunni.

Starfshópinn munu skipa fulltrúar fulltrúar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Samgöngustofu, Vegagerðarinnar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.

Þórgnýr Einar Albertsson