
Vinna að bættu umferðaröryggi smáfarartækja
Tryggja umferðaröryggi og bæta innviði
Starfshópurinn mun kortleggja stöðu þessara farartækja og vinna tillögur sem eiga að tryggja umferðaröryggi og bæta innviði. Tillögunum skal skilað fyrir 1. júní í ár.
Eins og segir í tilkynningunni hafa þessi litlu farartæki orðið nokkuð áberandi og mikilvægur ferðamáti á skömmum tíma. Þau hafi skapað tækifæri „til jákvæðra breytinga á ferðavenjum fólks“.
Fyrsta banaslysið
Samhliða mikilli aukningu rafhlaupahjólaferða hefur slysum fjölgað þó nokkuð. Fram kom í október að slys séu þó ekki algeng miðað við þann fjölda ferða sem eru farnar.
Fyrsta banaslysið á rafhlaupahjóli hér á landi varð í nóvember norðan við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar þegar rafmagnshlaupahjól og létt bifhjól, hvort tveggja smáfarartæki, skullu saman.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að til standi að stuðla að umferðaröryggi í tengslum við smáfarartæki og sömuleiðis styðja við fjölbreyttari og umhverfisvænni ferðamáta.
Tillögur liggi fyrir í sumar
„Því er stefnt að því að sumarið 2022 liggi fyrir tillögur að breytingum á regluverki smáfarartækja, ásamt áherslum og aðgerðum um örugga notkun, búnað og umhverfi smáfarartækja hér a landi sem samræmist þessum markmiðum,“ segir í tilkynningunni.
Starfshópinn munu skipa fulltrúar fulltrúar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Samgöngustofu, Vegagerðarinnar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.