Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

RARIK tryggir heitt vatn fyrir baðlón á Skagaströnd

Mynd með færslu
 Mynd: skagastrond.is
Sveitarfélagið Skagaströnd og RARIK hafa undirritað samning um afhendingu á vatni vegna uppbyggingar baðlóna á Skagaströnd. Til stendur að reisa baðstað á Hólanesi, byggja þar á sjávarbakkanum baðlaugar og heita potta ásamt þjónustuhúsi.

Sveitarstjórn samþykkti samninginn samhljóða á síðasta fundi sínum og fól Alexöndru Jóhannesdóttir, sveitarstjóra, að undirrita hann. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, undirritaði samninginn fyrir hönd fyrirtækisins.

Á fundinum bókaði sveitarstjórn að í þessu nýja samkomulagi sé áréttað að RARIK tryggi sveitarfélaginu vatn fyrir baðlaugar, þrátt fyrir að ástand vatnsöflunar fyrir veituna sé með þeim hætti að mælt sé um takmarkanir á afhendingu á meðan leitað sé að meira vatni.

„Sveitarfélagið fagnar þessum áfanga og er fullt eftirvæntingar að halda áfram að vinna að þessari mikilvægu uppbyggingu sem glæsilegu baðlónin við Hólanes verða fyrir Norðurland vestra,“ segir einnig í bókun sveitarstjórnar Skagastrandar.