Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Móbotna leyndi á sér - gæti gagnast í baráttu gegn riðu

10.01.2022 - 12:58
Mynd með færslu
 Mynd: Guðfinna Harpa Árnadóttir - Móbotna frá Straumi
Kindurnar Tignarleg frá Sveinsstöðum í Húnaþingi og Móbotna frá Straumi í Hróarstungu á Héraði skráðu sig á spjöld sögunnar á föstudag. Þá kom í ljós að þær bera sjaldgæft gen sem verndar þær gegn riðu. Fjórar slíkar ær hafa nú fundist í íslenska stofninum en engir hrútar. Ráðunautur segir að leitin að geninu beinist ekki síst að öllu furðufé; kindum sé séu óvenjulegar eða sérstakar að einhverju leyti.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ásamt sérfræðingi frá Tilraunamiðstöð Háskóla Íslands á Keldum vinna nú að því, ásamt þýskum, enskum og ítölskum vísindamönnum, að finna fé í íslenska stofninum sem mögulega gæti verið ónæmt fyrir riðu. Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður Landsamtaka sauðfjárbænda, ráðunautur og bóndi á Straumi í Hróarstungu á Héraði, segir að góð tíðindi hafi borist síðastliðinn föstudag. „Þá voru að finnast tvær kindur í viðbót með svokallaðan T137 breytileika. Áður höfðu fundist tvær kindur með þennan breytileika og það hefur sýnt sig að hann sé verndandi gegn riðu í þremur stórum ítölskum rannsóknum. Þannig að við höfum vonir um að það gildi hið saman gagnvart riðunni sem hefur verið að herja á okkur hér á Íslandi. En það á eftir að staðfesta það með frekari rannsóknum. En þetta er allavega mjög spennandi, að finna þennan breytileika,“ segir Guðfinna. 

Engir hrútar hafa enn fundist með þetta gen en leitin heldur áfram. Þrjár af kindunum fjórum eru frá Sveinsstöðum í Húnaþingi. Guðfinna á sjálf eina kind sem ber genið, það er hún Móbotna. „Hún er nú svolítið sérstök því hún er móbotnótt og ferhyrnd. Og það var eitt af því sem við fegnum svona sem punkt inn í þetta, að leita kannski í kindum sem væru eitthvað sérstakar. Forystufé, gamlir stofnar, ferhyrnt fé og svona ýmsir litir. Reyna að skima sem víðast í stofninum og vonandi finnum við fleiri spennandi gripi sem geta hjálpað okkur í þessari baráttu við riðuna. Auðvitað verður svo í framhaldinu hægt að gera ræktunaráætlun, hvernig við höfum hugsað okkur á rækta þessa áfram,“ segir Guðfinna Harpa Árnadóttir, bóndi, ráðunautur og formaður.